sunnuntaina, marraskuuta 07, 2010
Til Ítalíu og aftur heim
Um daginn var ég í París. Meðal þess sem ég enn að velta fyrir mér: hver hafi krotað JON BON JOVI á legstein Oscars Wilde.

Ferðin var annars hin allra fínasta. Ferja yfir sjóinn á sunnudagskvöldi, svo lest til Prag og þaðan til Bologna. Sungið á tónleikum á fimmtudeginum og morguninn eftir brunað í túristabæinn Rimini (en þar sem Ítalía er almennt ofboðslega gömul og ítölsk og einhvernveginn ekta var hin hlið bæjarins líka einmitt þannig, á röngu hreinræktaðrar túristagildru). Þar beið okkar sólarupprás á sólarströnd, fimmta sæti (af sautján!) í kórakeppni og skammt undan dólgslæti og vampírusafn (sem við fórum ekki inná en sýndum þó viðleitni til dólgsláta við útstillingarnar) í San Maríno. Á mánudegi tókum við lest til S-Frakklands (og í lestinni fréttum við fyrst af yfirvofandi samgönguverkfalli), nánar til tekið Grenoble - þar var gengið á tvo minniháttar alpneska toppa, húkkað far til Lyon og þaðan áleiðis til Parísar. Við komum þangað á föstudegi - sem var seinna en áætlað - vegna verkfallsins.

PARÍS

Eitthvað var semsagt áætlað en þó fátt gert með fyrirvara, þar sem við gættum þess tiltölulega vandlega allar götur frá Ítalíu að gera sem minnstar áætlanir almennt. Í Lyon, daginn áður en við komumst loks til Parísar, höfðum við þó tryggt okkur gistingu hjá þarbúsettum kunningja. Þegar áfangastað var náð reyndist sá sjálfur verkfallstepptur annarsstaðar svo gistingin fór fyrir lítið. En við vorum samt í París. Það var gaman. Þar nýttum við aðstæður til að lifa okkur bókstaflega inní tilveru útigangsfólks sem geymir aleigu sína á lestarstöðinni, sefur í hringi í Metróinu þegar barirnir loka og böskar við Eiffelturninn. Eða allavega syngur það sér til hita í röðinni að Eiffelturninum, finnska klámkeðjusöngva án upphafs eða endis. Svo voru náttúrlega Finnar beint við hliðina á okkur í röðinni, sem eðli málsins samkvæmt þurftu að standa þar þöglir í visst langan tíma áður en þeir gátu látið það uppi, og seinna jafnvel farið að brosa aðeins, einhversstaðar á milli lyftu eitt og tvö. (Við höfðum viljað taka stigann frekar en lyfturnar, skítkalt og við í Alpafráhvörfum, en það var búið að loka honum.) Á fyrsta barnum sem við fórum inn á í Montmartre voru líka Finnar, meiraðsegja í tveimur mismunandi hópum. Þeir voru kenndari en hinir í lyfturöðinni og buðu okkur hinir elskulegustu í karókí. (Talandi um, þá sló ég öll fyrri met um daginn með því að a) fara tvisvar í karókí sama daginn b) syngja sama lagið tvisvar í karókí sama daginn. En það var bara hér í Turku.) Daginn eftir mætti ég Gérard Lemarquis á tröppum Sacré Coeur.

LILLE

Á sunnudagskvöldi vorum við ennþá skotin í París en minna í roki, rigningu, heimilisleysi og lestarferðalaginu okkar í lestarverkfallalandi. Hugleiddum aðeins í átt til Amsterdam, en Belgía var verkfallin einnig - svo við sóttum hafurtaskið á stöðina og tókum fyrstu lest í átt að þýsku landamærunum.

Lestin sú bar okkur þó ekki lengra en til Lille og þegar þangað var komið, sirka ellefu um kvöldið, reyndist næsta lest til Strasbourg ekki fara fyrr en snemma morguninn eftir. Við vorum frekar uppgefin áðí (nóttina áður var sofið í metróinu) en höfðum ekki í hús að venda og annaðhvort nenntum ekki að leita að einhverskonar gistiþjónustu eða höfðum einfaldlega varla efni á því, nema hvorttveggja hafi verið. Enduðum á bekk við kirkju skammt frá lestarstöðinni, þar sem fljótlega varð kalt að sitja auðum höndum og horfa á gufu eigin andardráttar. Svo við fórum í svefnpokana okkar og sátum þarna umkringd bakpokum og plastpokum og draslpokum, dúðuð í hinar ólíklegustu flíkur, súpandi bjór sem leynst hafði í farangrinum og gaulandi finnska nútímaklassík af hverfandi mætti, þegar pítsubíll ók hjá. Okkur þótti opinn pítsustaður ekki slæm tilhugsun og reyndum að ná sambandi við par á gangi handan götunnar (eh, eskúsemúa, eskuse ön restoran du pítsa?). Þau greikkuðu bara sporið og sögðu nó sorrí, ví dónt smók!

Á einhverju stigi næturinnar færðum við okkur og hafurtaskið yfir á kirkjuþrepið, því þar var skjól. Samt drullukalt. Ég svaf að minnsta kosti eitthvað, fyrr eða síðar, en um morguninn vorum við því fegnust að koma okkur á fætur og burt úr þessum bæ.

BERLÍN

Við komumst til Strasbourg og þaðan á hlægilega stuttum tíma yfir landamærin til Offenburg. Frá og með Þýskalandi rann ferðin frekar ljúflega fram, samgöngur héldu dampi og við ei meir á götunni. Um kvöldið vorum við í Berlín. Þar höfðum við þó mjög stuttan tíma, því við vildum ná lest áleiðis til Svíþjóðar klukkan fimm morguninn eftir, en fannst hvað sem því leið afar aðlaðandi tilhugsun að hafa í einhver hús að venda. Á leiðinni hafði ég sent Önnu sms til að ná sambandi við berlínsku sumarsambúðingana okkar af Bergstaðastrætinu og lét það fylgja með til samhengis að við hefðum eytt undanfarinni nótt á kirkjutröppum í Lille. Smsið sendist í tveimur hlutum og þeirra á milli fékk ég svar um að fyrst ég væri í Lille ætti ég endilega að hafa samband við frænku hennar sem byggi þar.

Senda einhverjum sms til að biðja hann um að senda einhverjum email um að hringja í okkur-aðferðin gafst þó ekkert betur þarna heldur en á fyrri stigum ferðarinnar (semsagt ekki betur en svo að ég fékk sms frá Berlín þegar ég var komin til Svíþjóðar), en áður en í óefni fór náðist þó samband við berlínskan vin ferðafélaga míns, sem við og fórum til. Það var gott, við fengum sturtu og mat og að leggja farangurinn frá okkur. Ályktuðum þó sem svo að það tæki því ekki að eyða þessum örfáu Berlínartímum í svefn, svo við vöktum við ýmsa iðju fram að lestartíma. Þegar í lestina var komið tókst okkur að sofa nokkuð óslitið alla leið til Malmö (nema þegar lestin fer um borð í ferjuna milli Danmerkur og Svíþjóðar, því þá þarf að yfirgefa hana og sofa í ferjunni á meðan). Í Malmö stóð síðan til að skipta um lest til að komast til Stokkhólms og þaðan í ferjuna heim til Turku, nema hvað að ég hafði ákveðið að fara ekki þangað strax heldur fyrst til Sveinbjarnar í Gamleby, einhversstaðar nálægt Linköping. Svo við komumst að þeirri niðurstöðu rétt fyrir Malmö að mér væri best að halda áfram í þeirri lest og skipta í Gautaborg, en þar höfðum við skipt lestum við upphaf ferðarinnar. Það væri líka praktískara fjárhagslega, því þá myndi ég halda mig við lókal lestir og sleppa við hinar dýrari. Okkur fannst við allavega mega lógísk og lítið dómgreindarskert miðað við líferni síðustu daga.

SVÍÞJÓÐ

Ég hélt semsagt ein áfram, áleiðis til (hélt ég) Linköping. Á einhverjum tímapunkti (þegar þetta var alltsaman farið að taka ískyggilega langan tíma) kom mér þó í hug að taka fram kortið, og komst þá að þrennu: Gautaborg er svo sannarlega ekki í leiðinni til Linköping, Linköping hinsvegar algjörlega í leiðinni til Stokkhólms og þótt Linköping sem punktur B sé ekkert stórkostlega langt frá Gautaborg sem punkti A aðskilur borgirnar gríðarinnar stöðuvatn sem heitir örugglega annaðhvort Vänern eða Vättern. (Þetta var alls ekki fyrsta (en þó síðasta) opinberun aumrar þekkingar okkar ferðalanganna á sænskri landafræði.) Þegar ég loksins komst til Gautaborgar um kvöldmatarleytið fann ég enga lest sem fór til Linköping, var næstum búin að gefa Sveinbamissjónið upp á bátinn og taka næstu lest til Stokkhólms í von um að geta enn náð í kvöldferjuna heim. Áður en til þess kom fann ég þó eina sem fór til Falköping, sem skv. kortinu var í áttina. Falköping var endastöð og þaðan komst ég til Jönköping, sem var líka endastöð. Þaðan náði ég síðustu lestinni til Linköping. Síðasta lest þaðan til Gamleby reyndist farin og ekki aðrar samgöngur í boði. (Þess má geta að lestin sem á endanum flutti mig til Linköping var á leið áfram til Stokkhólms og einmitt þessi dýrari sem ég, að því er virtist milljón klukkutímum fyrr, hafði verið að reyna að forðast að taka. En ég þurfti samt ekki að borga extra því ég sagði konunni með þreyttustu röddinni minni að ég væri bara að fara svona stutt og hefði ekki náð að bóka sæti því ég hefði verið í Berlín um morguninn.) Sveinbjörn kom og sótti mig til Linköping, á bíl einhvers sem ég held að hann þekki varla. Um miðnætti á þriðjudagskvöldinu komum við loks til Gamleby og ég rotaðist í stúdíóinu, hafandi síðast sofið annarsstaðar en í almenningsfarartæki aðfararnótt laugardagsins.

Ógó gaman að hitta Sveinbjörn (fyrsta skipti síðan jól 2008) og kærustuna hans (sem ég hafði ekki hitt fyrr) og mér fannst ótrúlega gott að vera í smábæ aftur. Þessi er líka einkar kósí. Var þar í góðu yfirlæti fram á föstudag, þegar ég hélt til Stokkhólms í kvöldferjuna og var komin heim morguninn eftir. Það var tuttugu dögum eftir brottför.

Tunnisteet: , , ,

Erla Elíasdóttir @ 2:47 ip.  
tiistaina, syyskuuta 28, 2010
Lest rímar við stresst
Á sunnudaginn tek ég ferju til Stokkhólms og á mánudaginn lest þaðan. Á fimmtudaginn verð ég í Bologna. Ég hef aldrei verið í lest yfir nótt fyrr og lengst farið með slíkri milli Turku og Joensuu (tekur sex-sjö tíma). Ég er ekkert stressuð. Ekkert kvíðin, svo ég viti, yfirhöfuð. Hinsvegar hef ég átt erfitt með að vakna undanfarna morgna, sökum djúpra drauma sem eru tregir til að sleppa takinu. Þar dregur fátt til tíðinda, er bara eitthvað að þvælast þangað til ég týni skónum mínum og skólatöskunni og eyði því sem eftir er draums í árangurslausa leit og meira klúður á stað með engum klukkum. Til dæmis. Ekkert stressuð, sko.

Langferðalestartips eru vel þegin.

Annars hlakka ég aðallega soldið til. Líka tónleikanna og keppninnar. Og að hitta Ítalina mína, jafnvel uppáhalds frönskuna á heimleiðinni.

Og kannast enginn við melódíuna í seinasta pósti? éveitðieruðaddna!

Tunnisteet: ,

Erla Elíasdóttir @ 8:25 ip.  
maanantaina, syyskuuta 27, 2010
traduttore, traditore
Komist ég einhvern daginn í frí, já svona alvöru frí þegar maður fer ekkert endilega neitt heldur flatmagar bara heima hjá sér, þá mun ég m.a. þekkja það af því að þurfa ekki að skrifa neina tölvupósta á útlensku. En kannski ég muni, á því stigi sögunnar, ekki upplifa útlenskurnar svo útlenskar lengur, kannski...

Annars hef ég alltaf haft mjög gaman af útlenskum. Hinsvegar jafnframt (mest?) gaman af íslensku og hefði t.d. kosið að geta lært finnskuna á henni fremur en ensku, hefði það aðeins verið í boði (en núorðið er víst ekki í boði að læra finnsku á Íslandi púnktur, svo ég ætla ekki að kvarta). Og nú læri ég ungversku og eistnesku á finnsku. Það gengur ágætlega, læri jafnvel eitthvað nýtt um finnskuna inná milli (kannski sérstaklega þar sem þetta eru jú skyld mál), en á hinn bóginn verður allt bara töluvert meira vesen en annars. Það sem helst fer í taugarnar á mér eru þýðingar. Mér finnst rosalega gaman að þýða, eiginlega skemmtilegast af öllu sem ég hef gert í námi ever. En tilgangurinn er jú að framleiða góðan, læsilegan texta og því á vissan hátt tilgangslaust að þýða yfir á mál sem maður hefur ekki fullt vald á. Það fer svo mikil auka orka í að reyna (sjaldnast með erindi sem erfiði) að hafa finnsku útkomuna 100% (og það alveg burtséð frá því hvort sjálf þýðingin skili merkingu og blæbrigðum 100%). Ef ég væri bara að skrifa texta á finnsku fyndist mér í lagi að gera fáein mistök, svo lengi sem allt væri skiljanlegt og, einhvernveginn, nógu rétt. En í ungverskum þýðingakúrsi á æfingin einfaldlega ekki að felast í því að leiðrétta ranga notkun á finnsku deildarfalli og mér finnst óþolandi að þurfa að gera það að atriði (og þegar ég segist ekkert hafa á móti því að gera mistök á ég við að ég er í raun hrikalega mistakafóbísk). Allavega. Ekkert stórmál, ég get jú alltaf fengið yfirlestur hjá sambýliskonum mínum (sem hefur samt sjaldnast gengið eftir, því oftar en ekki legg ég lokahönd á þýðingarnar um það bil sem tímarnir eru að hefjast).

Kannski ég fókuseri bara á röng vandamál í þessu öllu saman.

Eeen jááá! Á annars í ströngum erfiðleikum með að einbeita mér að ofangreindu og öðru misaðkallandi upp á síðkastið, þar eð beitingin fer öll í kórtónleika/generalprufu (á laugardaginn) og Ítalíukeppnis- og tónleikaferð (á sunnudaginn). Að plana ferðina (og með því á ég frekar við lestarferðina en sjálfan áfangastaðinn) og læra fullt af kórtextum utanbókar (talandi um allskonar útlenskur) að ógleymdum röddunum og blæbrigðum og öðru, að ekki sé minnst á að við ætlum víst að vinna þessa keppni - kórinn minn keppti síðast á Írlandi 2006 og vann fyrstu verðlaun í öllum þremur flokkum. skrítið að fylgja slíku eftir.

Lagið að neðan er ekki beinlínis á neinu prógrammi, en á generaltónleikunum á laugardaginn verður það lagið sem allir kórarnir - 6 talsins - syngja saman í lokin. Ég er einhvernveginn svo viss um að hafa heyrt það á íslensku en man þó ómögulega orð úr þeim texta, sé hann til - kannast einhver við?


Erla Elíasdóttir @ 3:15 ip.  
torstaina, kesäkuuta 24, 2010
Ívera
Svo gott að hafa góðan stað að vera á. Síðasta vetur: einmennings„íbúð“ í finnsku stúdentaþorpi, ekki afþví mig langaði neitt sérstaklega að búa alein heldur hafði það barasta skort uppá íbúðartengdan orðaforða að ég skildi almennilega hvað sótt var um. Nú hefur forðinn vaxið og ég prófað einbú, sem var ágætt. Mun varla sækjast eftir því aftur. Fyrsta skipti sem ég hitti Juttu spurði hún hvernig ég byggi. In the Student Village, a single flat, sagði ég. Ah, sagði Jutta, you live in a suicide studio! Í sumar bý ég aftur með fólki, góðu fólki og aftur í húsnæði með vott af karakter eða hellings karakter, og skildi eiginlega varla hvað svoleiðis hafði vantað fyrr en ég vaknaði þar fyrst. Það er gott, gott, gott. Var óviss með húsnæði næsta vetrar, vissi ekki neitt nema að „eldri“ nemendur skyldu ekki treysta á stúdentaíbúðir fyrren í byrjun október þar eð nýrri hefðu forgang (sem er skrítið, afhverju myndu stúdentaíbúðir losna í byrjun október?). En í fyrradag fékk ég póst frá Juttu (við tölum finnsku núna), sem býr í stúdentaþorpinu skammt frá mínu gamla, í þriggja svefnherbergja íbúð, sem ég hef komið í og er megakósí, og þær vantar þriðju manneskju þangað í haust. !
Erla Elíasdóttir @ 3:15 ip.  
perjantaina, kesäkuuta 18, 2010
Góðar móttökur
Hér hef ég sjóinn og fjallið, fiskinn og fuglinn og fullt af birtu. Sé líka á annan tug plantna, lifandi og plast. Hér eru líka góðir gluggar og notalegt fólk og stundum koma fyndin símtöl.

Hin móttakan mín var allt öðruvísi, þar sat ég bara á kvöldin og dálítið eins og á bakvakt. Lítið af plöntum og gluggum og hvort sem er bara bílastæði að sjá. Mér leið samt vel þar.

Og internetið er undarlega mikið eins, óháð tíma, birtu, persónum eða blaðgrænu.
Erla Elíasdóttir @ 3:08 ip.  
tiistaina, kesäkuuta 15, 2010
Eitthvað ég veit ekki hvað
Að skrifa er að hugsa og að hugsa er að hugsa um eitthvað. Og að hugsa um eitthvað er að viðurkenna það og staðfesta sem liðið eða í það minnsta mögulegt: að skrifa eitthvað.
Að skrifa er að staðsetja (sig) innan orða og taka þannig afstöðu með þeim (instrumentalt), með þeim (sympatískt), gegn þeim (andstætt), frá þeim (sinnulaust): að skrifa (sig) eitthvert.
Að skrifa er að tengja, tengja þræði til að greiða sundur til að þræða aftur og öðruvísi, því oft er aðeins þannig unnt að virða fyrri tengingar fyrir sér: að skrifa einhverjum.
Útkoman (ekki skrifanna heldur hugmyndarinnar umhverfis) er illrjúfanleg þríeining. Mér finnst að minnsta kosti erfitt að skrifa alfarið framhjá einhverskonar umfjöllunarefni, einhverskonar afstöðu og einhverskonar viðtakanda.

Fjórða víddin er tíminn sem flýtur oft óaðgreinanlega inní, útúr, utanum hinar en er um leið eitthvað svo sérbökuð. Eins og hún gæti næstum staðið hjálparlaust (en það getur hún ekki, og ekkert annað heldur. Ég trúi því ekki að neitt gerist hjálparlaust.).

Ég sit í vinnunni, þeirri sömu og sumar 05 og sumar 06 og skrifaði (mjööög) margar bloggfærslur. Afþví mig langaði til og kannski þurfti þess líka, og afþví það er skemmtilegra en margt annað sem auðveldar manni ítroðslu internets inní að öðru leyti steindauð augnablik. Það var líka fyrir tíð þessara miðla sem veita stökum skyndihugdettum svo ágætlega en hamla oftar en ekki frekari þróun. Vinnan annars góð sem fyrr og sem flest annað. Mér finnst ennþá dálítið erfitt (erfiðast) að enda svona færslur, sérstaklega þær sem eru bara óbeint um eitthvað sérstakt.
Erla Elíasdóttir @ 9:36 ap.  
torstaina, maaliskuuta 04, 2010
Mats
Sumir geta gleymt að borða, ég er ekki í þeim hópi. Ef ég einhverntímann kemst í hann heilsu- ellegar fjárhagskrappan vegna einhverskonar ofneyslu, þá verður það á lakkrísís eða salmíaksúkkulaði eða sinnepssamlokum. Önnur áhættuefni eru í meira sósjal samhengi, hef t.d. aldrei nennt að drekka áfengi ein.
Sumir nenna síður að elda ef þeir búa einir, ég er ekki í þeim hópi. Elda alveg jafn oft í einbýli og hef alveg jafn gaman af því, eiginlega alveg sama hvort það er hafragrautur eða eggjakaka eða linsubaunarauðrófukókosflögupottréttur, það má alltaf finna aðeins skemmtilegri og betri útfærslu en síðast.
Á Seyðisfirði í fyrra gerði ég meira en nokkurntímann fyrr eða síðar af því að a) baka b) prjóna. En í íbúðinni minni í Turku er ekki bakarofn og ég skildi prjónadótið eftir í Reykjavík. Nú hefur klófest mig lamandi löngun til hvors tveggja, svo ég fann uppskrift og sendi eftir lopa og klæjjjjar eftir að byrja! og þótt ég búi til gebbaðar kókoskúlur fer það, sem eina óbakaða eftirréttartrompið mitt, að verða einhæft, svo Nínfríð uppáhaldssælkeri gaf mér sneið af hrárri ostarjómasykurdýrð.

Ég tók eftir því í kvöld að finnskt rúgbrauð (sem er einmitt bara rúgbrauð, ekki með íslenska sírópstvistinu) með dijonsinnepi og gúrkusneiðum bragðast ALVEG eins og sushi.
Erla Elíasdóttir @ 12:16 ap.  
torstaina, helmikuuta 18, 2010
Rúðustrik
1. Línustrikaðar stílabækur fást EKKI hér. Bara rúðustrikaðar, sem allir virðast glósa í, eða auðar, sem eru þá líka dýrar og af asnalegri stærð í dagbókarlegum kápum.

2. Fyrir jól hjólaði ég allt, þegar ég kom aftur í janúar fannst mér eitthvað skerí tilhugsun að hjóla í snjónum og frostinu. Svo ég reyndi það ekki einusinni fyrr en ég var hrikalega hress í byrjun febrúar eftir Helsinkifund við Halldóru. Skemmst frá því að segja að ég datt oftar gangandi í hálkunni en hingað til hjólandi.

3. Um helgina er kórferð. Gaman!

4. Ég á að skila verkefni á morgun (eftir?) sem ég er að reyna að byrja á — það á að vera einhverskonar kynning á mastersritgerðinni minni. Sem er náttúrlega ekki einu sinni glæta í huga mér enn, eða auðvitað bara pínulítil, en ekkert sem maður skrifar niður. Kannski á morgun?

5. Mig langar að læra málvísindi í háskólanum í Münich, verst að ég kann enga þýsku.

6. Fattaði um daginn að finnska orðið yfir klukkustund er germanskt lán (tunti), ungverska orðið latneskt lán (óra). Fannst skrítið að svoleiðis hugtak væri ekki í grunnorðaforðunum, eins og gras eða ég eða éta. En auðvitað hefur fólk ekki alltaf verið jafn upptekið af að reikna klukkustundir eins og við í dag.
Erla Elíasdóttir @ 10:38 ip.  
tiistaina, helmikuuta 16, 2010
Þunglyndi, geðdeyfð og botnlaust sinnuleysi
Versti óvinur Finna er þunglyndi, geðdeyfð, botnlaust sinnuleysi. Skapþyngsl hanga yfir giftulausri þjóð, hafa árþúsundum saman beygt hvern einasta Finna undir vald sitt og er því dimmt yfir þungbúinni þjóðarsálinni. Ítök sorgarinnar eru svo sterk að margir Finnar sjá dauðann aðeins sem hjálpræði úr nauðum. Kolsvart hugarfarið er þeim harðsnúnari andstæðingur en Sovétríkin.

Fyrsta málsgrein Dýrðlegs fjöldasjálfsmorðs eftir Arto Paasilinna (þýðing mín, en hún er víst til í ísl. þýðingu Guðrúnar Sigurðardóttur).

Sorrí með að nenna aldrei fleiri myndum (fb að kenna) eða bloggum (líka).

En líður vel! Finnskunni fleygir fram, helst þó orðaforða tengdum námi - get lesið og skilið hvað sem er um tungumál, hitt meira abstrakt hefur soldið orðið útundan. Og því les ég Paasilinna. Nóg af dökkleitum lýsingarorðum handa öllum.

Hef reyndar verið rosa dugleg að tala undanfarið (samt svo auðvelt að lesa bara og hlusta og segja ekki nema það nauðsynlegasta), aðallega við Rússa en líka Finna (tala = finnsku). Af almennara tali hef ég varla gert eins mikið allan veturinn og um daginn í Helsinki með Halldóru, það var gott.

Sakna Ástralanna minna sem fóru heim um daginn, samt nóg af góðu fólki eftir. Stundum finnst mér ég búa yfir óbrigðulli hæfni til að rekast á besta fólkið á hverjum stað.

Stundum smá heimþrá, það er ágætt. Svona smá stingir til að segja manni að allt sé enn á sínum stað. Fyrir jól voru jólin aldrei langt undan en að þeim slepptum getur sumarið virst ansi fjarri. En febrúar er stystur, í mars kemur Berlín, í apríl er vor og í maí verður sumarfrí.

Erla Elíasdóttir @ 8:56 ap.  
lauantaina, syyskuuta 19, 2009
Turusta

Mér datt í hug í dag að ég geri yfirleitt mjööög sjaldan annað en það sem mig langar, sökum þess að finnast það skemmtilegt eða gott á einhvern hátt. Sem betur fer langar mig bara oftast til ýmissa uppbyggilegra hluta eins og að vaska upp, sinna náminu, gera jóga og vera almennileg við fólk.
Fór á magnaða tónleika á fimmtudag og magnaðri á föstudag. Gleymi alltaf myndavélinni og er heldur ekki með tölvusnúrudótið, ætla að birta nokkrar myndir teknar af Natöshu. Mynd eitt: tónleikar fyrir tveimur helgum, á hinum ágæta klúbbi Klubi - með finnskri hljómsveit sem ég man ekki hvað heitir, en það var eitthvað mjög langt og jafnvel á ensku, og svo myndi ég líka frekar vilja muna nafnið á upphitunarmanninum. Hann byrjaði sem trúbadúr en þróaðist yfir í eins manns hljómsveit sem stökk milli hljóðfæra með munnhörpu milli tannanna og ofboðslega krúttlegt stress í handahreyfingum. Svo setti hann á sig hvíta vængi og söng Playground Lover með Air, á finnsku. Fólkið á myndinni eru rússnesku(/mælandi) stelpurnar mínar og Finni sem er með þeim í tímum.

Bronshesturinn sem líkist frekar gíraffa er ítalskt listaverk við aðalverslunargötuna. Hann á að tákna einhverskonar lukku, sem veitist þeim sem snerta hann (þessvegna erum við allar að snerta hann en ekki bara standa kasjúallí við hlið hans að reyna að vera ekki of túristalegar).

Á fimmtudaginn var róðrarkeppni á ánni milli háskólanna í borginni. Við mættum á árbakkann stundvíslega klukkan fjögur. Klukkan hálffimm virtust liðin þrjú fara að hugsa sér til hreyfings og liðsmenn voru kynntir í hátalara. Svo liðu svona tíu mínútur og við, sem sátum í köldu grasi á árbakkanum, tókum allt í einu eftir því að bátarnir voru allir horfnir, að því er virtist í gagnstæða átt en við höfðum búist við. Eftir aðrar tíu mínútur voru þau enn horfin og við fórum heim. Á mynd þrjú erum við, norpandi við ána.
Næst fleiri myndir, fleiri frásagnir...
Erla Elíasdóttir @ 9:08 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER