sunnuntaina, marraskuuta 07, 2010
Til Ítalíu og aftur heim
Um daginn var ég í París. Meðal þess sem ég enn að velta fyrir mér: hver hafi krotað JON BON JOVI á legstein Oscars Wilde.

Ferðin var annars hin allra fínasta. Ferja yfir sjóinn á sunnudagskvöldi, svo lest til Prag og þaðan til Bologna. Sungið á tónleikum á fimmtudeginum og morguninn eftir brunað í túristabæinn Rimini (en þar sem Ítalía er almennt ofboðslega gömul og ítölsk og einhvernveginn ekta var hin hlið bæjarins líka einmitt þannig, á röngu hreinræktaðrar túristagildru). Þar beið okkar sólarupprás á sólarströnd, fimmta sæti (af sautján!) í kórakeppni og skammt undan dólgslæti og vampírusafn (sem við fórum ekki inná en sýndum þó viðleitni til dólgsláta við útstillingarnar) í San Maríno. Á mánudegi tókum við lest til S-Frakklands (og í lestinni fréttum við fyrst af yfirvofandi samgönguverkfalli), nánar til tekið Grenoble - þar var gengið á tvo minniháttar alpneska toppa, húkkað far til Lyon og þaðan áleiðis til Parísar. Við komum þangað á föstudegi - sem var seinna en áætlað - vegna verkfallsins.

PARÍS

Eitthvað var semsagt áætlað en þó fátt gert með fyrirvara, þar sem við gættum þess tiltölulega vandlega allar götur frá Ítalíu að gera sem minnstar áætlanir almennt. Í Lyon, daginn áður en við komumst loks til Parísar, höfðum við þó tryggt okkur gistingu hjá þarbúsettum kunningja. Þegar áfangastað var náð reyndist sá sjálfur verkfallstepptur annarsstaðar svo gistingin fór fyrir lítið. En við vorum samt í París. Það var gaman. Þar nýttum við aðstæður til að lifa okkur bókstaflega inní tilveru útigangsfólks sem geymir aleigu sína á lestarstöðinni, sefur í hringi í Metróinu þegar barirnir loka og böskar við Eiffelturninn. Eða allavega syngur það sér til hita í röðinni að Eiffelturninum, finnska klámkeðjusöngva án upphafs eða endis. Svo voru náttúrlega Finnar beint við hliðina á okkur í röðinni, sem eðli málsins samkvæmt þurftu að standa þar þöglir í visst langan tíma áður en þeir gátu látið það uppi, og seinna jafnvel farið að brosa aðeins, einhversstaðar á milli lyftu eitt og tvö. (Við höfðum viljað taka stigann frekar en lyfturnar, skítkalt og við í Alpafráhvörfum, en það var búið að loka honum.) Á fyrsta barnum sem við fórum inn á í Montmartre voru líka Finnar, meiraðsegja í tveimur mismunandi hópum. Þeir voru kenndari en hinir í lyfturöðinni og buðu okkur hinir elskulegustu í karókí. (Talandi um, þá sló ég öll fyrri met um daginn með því að a) fara tvisvar í karókí sama daginn b) syngja sama lagið tvisvar í karókí sama daginn. En það var bara hér í Turku.) Daginn eftir mætti ég Gérard Lemarquis á tröppum Sacré Coeur.

LILLE

Á sunnudagskvöldi vorum við ennþá skotin í París en minna í roki, rigningu, heimilisleysi og lestarferðalaginu okkar í lestarverkfallalandi. Hugleiddum aðeins í átt til Amsterdam, en Belgía var verkfallin einnig - svo við sóttum hafurtaskið á stöðina og tókum fyrstu lest í átt að þýsku landamærunum.

Lestin sú bar okkur þó ekki lengra en til Lille og þegar þangað var komið, sirka ellefu um kvöldið, reyndist næsta lest til Strasbourg ekki fara fyrr en snemma morguninn eftir. Við vorum frekar uppgefin áðí (nóttina áður var sofið í metróinu) en höfðum ekki í hús að venda og annaðhvort nenntum ekki að leita að einhverskonar gistiþjónustu eða höfðum einfaldlega varla efni á því, nema hvorttveggja hafi verið. Enduðum á bekk við kirkju skammt frá lestarstöðinni, þar sem fljótlega varð kalt að sitja auðum höndum og horfa á gufu eigin andardráttar. Svo við fórum í svefnpokana okkar og sátum þarna umkringd bakpokum og plastpokum og draslpokum, dúðuð í hinar ólíklegustu flíkur, súpandi bjór sem leynst hafði í farangrinum og gaulandi finnska nútímaklassík af hverfandi mætti, þegar pítsubíll ók hjá. Okkur þótti opinn pítsustaður ekki slæm tilhugsun og reyndum að ná sambandi við par á gangi handan götunnar (eh, eskúsemúa, eskuse ön restoran du pítsa?). Þau greikkuðu bara sporið og sögðu nó sorrí, ví dónt smók!

Á einhverju stigi næturinnar færðum við okkur og hafurtaskið yfir á kirkjuþrepið, því þar var skjól. Samt drullukalt. Ég svaf að minnsta kosti eitthvað, fyrr eða síðar, en um morguninn vorum við því fegnust að koma okkur á fætur og burt úr þessum bæ.

BERLÍN

Við komumst til Strasbourg og þaðan á hlægilega stuttum tíma yfir landamærin til Offenburg. Frá og með Þýskalandi rann ferðin frekar ljúflega fram, samgöngur héldu dampi og við ei meir á götunni. Um kvöldið vorum við í Berlín. Þar höfðum við þó mjög stuttan tíma, því við vildum ná lest áleiðis til Svíþjóðar klukkan fimm morguninn eftir, en fannst hvað sem því leið afar aðlaðandi tilhugsun að hafa í einhver hús að venda. Á leiðinni hafði ég sent Önnu sms til að ná sambandi við berlínsku sumarsambúðingana okkar af Bergstaðastrætinu og lét það fylgja með til samhengis að við hefðum eytt undanfarinni nótt á kirkjutröppum í Lille. Smsið sendist í tveimur hlutum og þeirra á milli fékk ég svar um að fyrst ég væri í Lille ætti ég endilega að hafa samband við frænku hennar sem byggi þar.

Senda einhverjum sms til að biðja hann um að senda einhverjum email um að hringja í okkur-aðferðin gafst þó ekkert betur þarna heldur en á fyrri stigum ferðarinnar (semsagt ekki betur en svo að ég fékk sms frá Berlín þegar ég var komin til Svíþjóðar), en áður en í óefni fór náðist þó samband við berlínskan vin ferðafélaga míns, sem við og fórum til. Það var gott, við fengum sturtu og mat og að leggja farangurinn frá okkur. Ályktuðum þó sem svo að það tæki því ekki að eyða þessum örfáu Berlínartímum í svefn, svo við vöktum við ýmsa iðju fram að lestartíma. Þegar í lestina var komið tókst okkur að sofa nokkuð óslitið alla leið til Malmö (nema þegar lestin fer um borð í ferjuna milli Danmerkur og Svíþjóðar, því þá þarf að yfirgefa hana og sofa í ferjunni á meðan). Í Malmö stóð síðan til að skipta um lest til að komast til Stokkhólms og þaðan í ferjuna heim til Turku, nema hvað að ég hafði ákveðið að fara ekki þangað strax heldur fyrst til Sveinbjarnar í Gamleby, einhversstaðar nálægt Linköping. Svo við komumst að þeirri niðurstöðu rétt fyrir Malmö að mér væri best að halda áfram í þeirri lest og skipta í Gautaborg, en þar höfðum við skipt lestum við upphaf ferðarinnar. Það væri líka praktískara fjárhagslega, því þá myndi ég halda mig við lókal lestir og sleppa við hinar dýrari. Okkur fannst við allavega mega lógísk og lítið dómgreindarskert miðað við líferni síðustu daga.

SVÍÞJÓÐ

Ég hélt semsagt ein áfram, áleiðis til (hélt ég) Linköping. Á einhverjum tímapunkti (þegar þetta var alltsaman farið að taka ískyggilega langan tíma) kom mér þó í hug að taka fram kortið, og komst þá að þrennu: Gautaborg er svo sannarlega ekki í leiðinni til Linköping, Linköping hinsvegar algjörlega í leiðinni til Stokkhólms og þótt Linköping sem punktur B sé ekkert stórkostlega langt frá Gautaborg sem punkti A aðskilur borgirnar gríðarinnar stöðuvatn sem heitir örugglega annaðhvort Vänern eða Vättern. (Þetta var alls ekki fyrsta (en þó síðasta) opinberun aumrar þekkingar okkar ferðalanganna á sænskri landafræði.) Þegar ég loksins komst til Gautaborgar um kvöldmatarleytið fann ég enga lest sem fór til Linköping, var næstum búin að gefa Sveinbamissjónið upp á bátinn og taka næstu lest til Stokkhólms í von um að geta enn náð í kvöldferjuna heim. Áður en til þess kom fann ég þó eina sem fór til Falköping, sem skv. kortinu var í áttina. Falköping var endastöð og þaðan komst ég til Jönköping, sem var líka endastöð. Þaðan náði ég síðustu lestinni til Linköping. Síðasta lest þaðan til Gamleby reyndist farin og ekki aðrar samgöngur í boði. (Þess má geta að lestin sem á endanum flutti mig til Linköping var á leið áfram til Stokkhólms og einmitt þessi dýrari sem ég, að því er virtist milljón klukkutímum fyrr, hafði verið að reyna að forðast að taka. En ég þurfti samt ekki að borga extra því ég sagði konunni með þreyttustu röddinni minni að ég væri bara að fara svona stutt og hefði ekki náð að bóka sæti því ég hefði verið í Berlín um morguninn.) Sveinbjörn kom og sótti mig til Linköping, á bíl einhvers sem ég held að hann þekki varla. Um miðnætti á þriðjudagskvöldinu komum við loks til Gamleby og ég rotaðist í stúdíóinu, hafandi síðast sofið annarsstaðar en í almenningsfarartæki aðfararnótt laugardagsins.

Ógó gaman að hitta Sveinbjörn (fyrsta skipti síðan jól 2008) og kærustuna hans (sem ég hafði ekki hitt fyrr) og mér fannst ótrúlega gott að vera í smábæ aftur. Þessi er líka einkar kósí. Var þar í góðu yfirlæti fram á föstudag, þegar ég hélt til Stokkhólms í kvöldferjuna og var komin heim morguninn eftir. Það var tuttugu dögum eftir brottför.

Tunnisteet: , , ,

Erla Elíasdóttir @ 2:47 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER