Komist ég einhvern daginn í frí, já svona alvöru frí þegar maður fer ekkert endilega neitt heldur flatmagar bara heima hjá sér, þá mun ég m.a. þekkja það af því að þurfa ekki að skrifa neina tölvupósta á útlensku. En kannski ég muni, á því stigi sögunnar, ekki upplifa útlenskurnar svo útlenskar lengur, kannski...
Annars hef ég alltaf haft mjög gaman af útlenskum. Hinsvegar jafnframt (mest?) gaman af íslensku og hefði t.d. kosið að geta lært finnskuna á henni fremur en ensku, hefði það aðeins verið í boði (en núorðið er víst ekki í boði að læra finnsku á Íslandi púnktur, svo ég ætla ekki að kvarta). Og nú læri ég ungversku og eistnesku á finnsku. Það gengur ágætlega, læri jafnvel eitthvað nýtt um finnskuna inná milli (kannski sérstaklega þar sem þetta eru jú skyld mál), en á hinn bóginn verður allt bara töluvert meira vesen en annars. Það sem helst fer í taugarnar á mér eru þýðingar. Mér finnst rosalega gaman að þýða, eiginlega skemmtilegast af öllu sem ég hef gert í námi ever. En tilgangurinn er jú að framleiða góðan, læsilegan texta og því á vissan hátt tilgangslaust að þýða yfir á mál sem maður hefur ekki fullt vald á. Það fer svo mikil auka orka í að reyna (sjaldnast með erindi sem erfiði) að hafa finnsku útkomuna 100% (og það alveg burtséð frá því hvort sjálf þýðingin skili merkingu og blæbrigðum 100%). Ef ég væri bara að skrifa texta á finnsku fyndist mér í lagi að gera fáein mistök, svo lengi sem allt væri skiljanlegt og, einhvernveginn, nógu rétt. En í ungverskum þýðingakúrsi á æfingin einfaldlega ekki að felast í því að leiðrétta ranga notkun á finnsku deildarfalli og mér finnst óþolandi að þurfa að gera það að atriði (og þegar ég segist ekkert hafa á móti því að gera mistök á ég við að ég er í raun hrikalega mistakafóbísk). Allavega. Ekkert stórmál, ég get jú alltaf fengið yfirlestur hjá sambýliskonum mínum (sem hefur samt sjaldnast gengið eftir, því oftar en ekki legg ég lokahönd á þýðingarnar um það bil sem tímarnir eru að hefjast).
Kannski ég fókuseri bara á röng vandamál í þessu öllu saman.
Eeen jááá! Á annars í ströngum erfiðleikum með að einbeita mér að ofangreindu og öðru misaðkallandi upp á síðkastið, þar eð beitingin fer öll í kórtónleika/generalprufu (á laugardaginn) og Ítalíukeppnis- og tónleikaferð (á sunnudaginn). Að plana ferðina (og með því á ég frekar við lestarferðina en sjálfan áfangastaðinn) og læra fullt af kórtextum utanbókar (talandi um allskonar útlenskur) að ógleymdum röddunum og blæbrigðum og öðru, að ekki sé minnst á að við ætlum víst að vinna þessa keppni - kórinn minn keppti síðast á Írlandi 2006 og vann fyrstu verðlaun í öllum þremur flokkum. skrítið að fylgja slíku eftir.
Lagið að neðan er ekki beinlínis á neinu prógrammi, en á generaltónleikunum á laugardaginn verður það lagið sem allir kórarnir - 6 talsins - syngja saman í lokin. Ég er einhvernveginn svo viss um að hafa heyrt það á íslensku en man þó ómögulega orð úr þeim texta, sé hann til - kannast einhver við?