tiistaina, kesäkuuta 15, 2010
Eitthvað ég veit ekki hvað
Að skrifa er að hugsa og að hugsa er að hugsa um eitthvað. Og að hugsa um eitthvað er að viðurkenna það og staðfesta sem liðið eða í það minnsta mögulegt: að skrifa eitthvað.
Að skrifa er að staðsetja (sig) innan orða og taka þannig afstöðu með þeim (instrumentalt), með þeim (sympatískt), gegn þeim (andstætt), frá þeim (sinnulaust): að skrifa (sig) eitthvert.
Að skrifa er að tengja, tengja þræði til að greiða sundur til að þræða aftur og öðruvísi, því oft er aðeins þannig unnt að virða fyrri tengingar fyrir sér: að skrifa einhverjum.
Útkoman (ekki skrifanna heldur hugmyndarinnar umhverfis) er illrjúfanleg þríeining. Mér finnst að minnsta kosti erfitt að skrifa alfarið framhjá einhverskonar umfjöllunarefni, einhverskonar afstöðu og einhverskonar viðtakanda.

Fjórða víddin er tíminn sem flýtur oft óaðgreinanlega inní, útúr, utanum hinar en er um leið eitthvað svo sérbökuð. Eins og hún gæti næstum staðið hjálparlaust (en það getur hún ekki, og ekkert annað heldur. Ég trúi því ekki að neitt gerist hjálparlaust.).

Ég sit í vinnunni, þeirri sömu og sumar 05 og sumar 06 og skrifaði (mjööög) margar bloggfærslur. Afþví mig langaði til og kannski þurfti þess líka, og afþví það er skemmtilegra en margt annað sem auðveldar manni ítroðslu internets inní að öðru leyti steindauð augnablik. Það var líka fyrir tíð þessara miðla sem veita stökum skyndihugdettum svo ágætlega en hamla oftar en ekki frekari þróun. Vinnan annars góð sem fyrr og sem flest annað. Mér finnst ennþá dálítið erfitt (erfiðast) að enda svona færslur, sérstaklega þær sem eru bara óbeint um eitthvað sérstakt.
Erla Elíasdóttir @ 9:36 ap.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER