maanantaina, helmikuuta 09, 2009
Ég heiti Erla og ég er kvíðasjúklingur
Ég (og kannski þú) man fyrir þremur árum, þegar við bloggið bjuggum í Kaupmannahöfn og virtist töluvert meira niðri fyrir en nú um stundir. Í endurliti var ég kannski hvorki beinlínis glaðari né vansælli, hvorki meira né minna sjálfhverf. Gæti sagst hafa verið einfaldlega öðruvísi þá en það væri ekki rétt. Ég veit að ég var meira einmana og að ég leitaði undankomuleiða, því einmanaleikinn fjötrar og er í raun andstæður einstaklingsfrelsi. Einmani er ekki frjáls, enda hvorki fyllilega sáttur né ósáttur (en hvort tveggja getur verið fullnægjandi á sinn hátt) heldur einhvernveginn ónógur, aðallega sjálfum sér. Mér virðist sem stórum hluta tíma míns hafi ég varið í leit að hverju því sem kynni að vera rétt: réttum svörum og réttu fólki í ramma réttrar tilveru. Eins og allt þetta saman komið gæti mögulega veitt sjálfri mér tilverurétt frammi fyrir sjálfri mér. Vandinn er að ég hef alltaf verið sjúklega dómhörð gagnvart sjálfri mér, miklu meira en mér dytti í hug að vera gagnvart öðrum og miklu meira en sennilegt er að aðrir séu gagnvart mér. Ein mælistika á mig, önnur á alla hina og ekkert getur verið nógu gott. Ég tel mig vera sæmilega rökrétta í hugsun, en fælnir og fóbíur hrærast óháð rökum. Í gíslingu eigin sjálfsgagnrýni, höfnunarótta og verklamandi mistakakvíða reyndist fátt að finna annað en loðin svör, kolrangt fólk og enn ruglingslegri spurningar. Síðan hef ég áttað mig á ýmsu, t.a.m. hversu marga af þeim ljótu og skökku flötum sem ég taldi óumflýjanlega í almennri tilveru ég hafði sjálf sniðið mér. Ótti við mistök og höfnun og aðrar leiðir til heimsenda og glötunar stjórnaði mér meira en ég stjórnaði nokkru. Þó kom það ekki mikið að sök á þessu tímabili, einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki svo mörgu að sinna sem gaf mér tækifæri til fullkomnunaráráttu og var einnig iðin við að slæva kvíðann eftir ýmsum flóttaleiðum. Nú í vetur hef ég hinsvegar tekist á við ýmislegt nýtt og einmitt af þeim toga að mér gefast þúsund tækifæri á dag til að finnast ég vanhæf og heimsk og deyja smá inní mér. Það skrítna er að ég veit samt alveg að ég er hvorki heimsk né vanhæf og veit yfirleitt nákvæmlega hvað ég er að gera. Því væri í raun léttir í samanburði ef allt væri í rauninni ómögulegt og ófullnægjandi og illa gert, því þá væri hægt að gera eitthvað í því. Það er flóknara að laga hugarvillurnar, líka þegar maður veit af þeim. En meðvitund er fyrsta skrefið og þessvegna hef ég reynt að vera stöðugt á verði, reynt að stöðva niðurrifshugsanirnar áður en þær skjóta rótum og vaxa í vítahringi. Ég reyni að minna mig á allt sem ég hef gert vel og það fáa sem ég hef gert verr og fullvissa mig um að BA ritgerðin mín verði aldrei nærri eins léleg og ég hef ímyndunarafl til að hún verði. Og að ég vilji að minnsta kosti komast að því hversu léleg hún verði í raun. Ég reyni. Þetta gengur allt saman ágætlega og á heildina litið líður mér mjög vel. Ég er heldur ekki einmana lengur. Ég er líka óendanlega miklu frjálsari á Seyðisfirði en á meginlandinu þótt mig gruni að umgjörðin sé innihaldinu óviðkomandi, kannski það hafi eitthvað með það að gera að gleyma svörunum og öllu öðru réttu um stund og leggja sig heldur eftir góðum spurningum.
Erla Elíasdóttir @ 12:40 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER