torstaina, tammikuuta 22, 2009
Litbrigði drauma
Aðfaranótt þriðjudags var ég í húsi á Hverfisgötu, rétt við Hlemm og af einhverju stafaði hætta. Í það minnsta vildi ég nýta mér nálægð við lögreglustöðina til að tilkynna óljós myrkraverk en komst aldrei alla leið, því á götunni var vagn, rétt að leggja af stað áfram upp efri hluta Hverfisgötunnar. Hann var hvítur og tveggja hæða, sú efri þaklaus útsýnis. Hann líktist helst smágerðu skemmtiferðaskipi og var troðfullur af fólki. Mér tókst að komast upp á ystu nöf utanáliggjandi stiga sem lá upp á útsýnisþakið og ná haldfestu áður en vagninn fór af stað. Þar var þröngt og óþægilegt að vera, og hætt við falli, auk þess sem mig grunaði eitthvað meira spennandi á þilfarinu. Svo ég ruddi mér leið upp stigann, en þilfarið reyndist þá ekki þaklausara en svo að kristalsljósakrónur lýstu upp teppalagt, laxableikt kokteilboð. Engin húsgögn, eða alveg lágmarks, en mikið af fólki. Innan um voru Seyðfirðingar, enginn þó sem ég þekkti eða man eftir í svipinn. Mér datt í hug að leita að Veru og Björgu og gekk nokkra hringi milli herbergja. Ég fann þær loks, báðar klæddar í einhvers konar dragt, blússu og jakka og sítt pils. Veru dress var búrgúndírautt úr ullarefni, Bjargar meira út í fjólublátt og úr filtefni. Fötin voru frekar kelló en þær merkilega lítið kelló í þeim. Björg var með hatt úr sama efni en Vera með nokkurskonar kollhúfu, saumaða saman úr fjórum bútum af fagurbleiku leðri sem mættust á hvirflinum. Ég sá húfuna vel meðan ég knúsaði Veru og náði að velta henni dálítið fyrir mér áður en ég vaknaði.

Aðfaranótt miðvikudags var ég stödd í vintagebúð sem virtist aðallega selja kjóla og undirkjóla og svo alls konar notað og nýtt smádrasl. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, eins og á Ikealager. Ég mátaði einn undirkjól og skoðaði svo mikið úrval af úrum, það voru barnaúr í skærum litum með allskonar glingur fest á ólarnar. Ég valdi eitt fjólublátt með gulum fiðrildum.

Aðfaranótt fimmtudags dreymdi mig að mamma hringdi í mig til að segja mér að hún gæti ekki lagt allan peninginn fyrir flugmiðanum suður inn á reikninginn minn (einsog hún ætlaði og er núna búin að í raunveruleikanum) vegna þess að pakki til mín hefði borist á Baldursgötuna og hún hefði þurft að borga 6000 kall í toll. Þegar pakkinn var opnaður kom í ljós upprúllað, meðalstórt plakat, texti á laxableikum grunni í svörtum ramma, sem minnti mig sterklega á aðgangsmiða á múmtónleika sem ég fór á í Hafnarfirði fyrir fjórum eða fimm árum.

Þetta þykir mér helst í frásögur færandi vegna þess að ekki er langt síðan ég hugleiddi það síðast að mig dreymdi aldrei í litum. Ekki svo að skilja að mig hafi dreymt litlaust, heldur einfaldlega dreymt og litir aldrei komið því neitt við. Mig hefur alltaf dreymt gífurlega mikið, án þess að hafa getað tengt liti við draumana.

Mig vantar úr í alvörunni, það er engin klukka í vinnunni og frekar óþægilegt að kenna tímalaust = ég alltof háð því að vera með símann.

Ég man ekki hvað mig dreymdi í nótt en er nokkuð viss um að litir hafi ekki komið við sögu.
Erla Elíasdóttir @ 10:20 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER