tiistaina, lokakuuta 14, 2008 |
Á klósetti til Kúvæt |
Vill einhver pæla í því að fólk fætt árið 1990 er átján ára gamalt í dag?
Árið 1990 var ég í sex ára bekk í Ísaksskóla. Sex ára bekkur var í annarri stofu en fimm ára bekkur og sjö og átta ára bekkir í þeirri þriðju. Þessvegna man ég t.d. glöggt að þegar ég var einhverju sinni sótt í skólann til að fara og kaupa nýtt sjónvarp í Smith og Norland, þá var ég einmitt í sex ára bekk. Sjónvarpið stendur enn í stofunni á Baldursgötu.
Jóladagatal Sjónvarpsins þennan vetur fjallaði um tvo krakka sem sigldu á baðkari til Betlehem(s), sennilega til að bjarga jólunum þótt ég muni það ei svo glöggt. Erkióvinur barnanna var illfyglið Klemmi, en þeim til halds og trausts var fiðluspilandi engill.
Ég man það töluvert betur en ég man þessa þætti þegar við Haukur frændi, veturinn 1990 á Freyjugötunni, lékum hinn æsispennandi leik Á klósetti til Kúvæt. Í stað fuglsins Klemma var Saddam Hussein á hælum okkar, verndarengillinn var hjúkka á vígstöðvunum og missjónið man ég alls ekki, en tel að það hafi síst verið af verri endanum. |
Erla Elíasdóttir @ 10:34 ip.  |
|
|