sunnuntai, syyskuuta 14, 2008
Brauð handa Obbu

Ég ætlaði fyrir löngu að hafa sent Obbu uppskrift sem ég sagði henni frá. Svo eftir að hafa hugsað um það vikum saman að senda uppskriftina en verið þó of framtaksheft til þess datt mér í hug að blogga henni frekar. Þessi færsla er því tileinkuð Obbu og öðrum lysthafendum heimabakaðs brauðs.

(Annars er uppskriftin reyndar bara úr Græns kosts/Hagkaupa-bókinni, skyldi einhver hafa haldið að um ættargersemi væri að ræða.)

Uppskriftin er svona:

2½ dl fínt spelt
2½ dl gróft spelt (eða 5 dl af öðru hvoru, eftir hvers og eins preferens (sjá minn preferens neðar))
1 dl sólblóma/sesam/hör/einhvernveginn fræ (má sleppa)
3 tsk lyftiduft (þ.e. vínsteinslyftiduft, fyrir heilsuperrana)
1 tsk salt

Þessu skal blanda vel saman. Svo er fljótandi efnunum bætt í, en þá skal gæta þess að blanda ekki of vel heldur bara rétt nægilega mikið, þ.e. eins lítið og frekast er unnt. Annars verður brauðið of blautt í sér og víst til að misheppnast. Flotefnin eru þessi:

1 dl (soja)mjólk
1 dl ab-mjólk
½ dl sjóðandi vatn

Á þessu stigi málsins má blanda ólífum eða hvítlauk eða sólþurrkuðum tómötum eða álíka gumsi í deigið, sé þess áfram gætt að blanda ekki of vel. Deigið er síðan sett í form og bakað við 200°C í 35 mínútur.

Kosturinn við þetta brauð er sá að það er gerlaust, þarf þess vegna ekki að hefast og er mjög fljótlegt í framkvæmd. Ókosturinn er sá að ef maður býr á Seyðisfirði kostar kílóið af spelti í Samkaupum fimmfalt á við kíló af heilhveiti. Þetta gleður Skarphéðin ómælt, enda skýtur það stoðum undir þá trú hans að speltisminn sé ekkert annað en peningaplokk svindlara sem spili inn á grandaleysi heilsupostula á borð við mömmu og mig. Ég held reyndar að hann hafi ekki alrangt fyrir sér. Ég veit ekki til þess að spelt hafi nokkra kosti framyfir hveiti aðra en glútenleysið, sem þó gildir aðeins fyrir þá sem þola illa glúten. Að öðru leyti felst hollustan í því hvort um sé að ræða gróf- eða fínmalað og það á bæði við um spelt og hveiti. Ég er ekki viðkvæm fyrir glúteni og því hlýtur gróft hveiti að vera hollara fyrir mig en fínt spelt. Ik?

Ég prófaði allavega þessa uppskrift með 5 dl af heilhveiti og hún heppnaðist alveg stórvel. Þá varð deigið allt öðruvísi en með speltinu, fastara í sér og þurfti á duglegu hnoði að halda. Sé heilhveiti notað þarf semsé ekki að fara varlega í að blanda deigið saman.

Heilhveitið fær því mitt atkvæði. Svona heilt yfir! a.m.k. meðan búið er við einokunarverslun Samkaupa.


Myndin er af Seyðisfirði, séð ofan úr Vestdal. Næst koma fleiri myndir.
Erla Elíasdóttir @ 6:20 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER