keskiviikkona, elokuuta 13, 2008
Um frjálst höfuð strokið
Og ég sem var orðin svo krónískt leið á hárinu á mér. Í fyrsta sinn á ég hár sem lítur alltaf vel út! og ekkert þarf að hafa fyrir! Fyrst þurfti ég bara að átta mig á því að undanfarin löngun í sítt hár (sjá að neðan) kom eingöngu til af þrá minni eftir hári sem taka mætti frá andlitinu með sem þægilegustum hætti.

Finnsk-pakistanska hárgreiðsludaman, óaðfinnanlega tilhöfð og afskaplega elskuleg, var á þriðju stofunni sem ég leitaði til. Hún átti lausan tíma. Hún spurði hvað mætti bjóða mér og missti svo andlitið af einlægri furðu þegar ég sagði henni það. Það tók mig margar mínútur að koma því til skila og þar stóðu ekki tungumálaörðugleikar fyrir þrifum (hún talaði mjög góða ensku (en þess má geta að þetta var eina tækifæri ferðarinnar sem ég sá mig tilneydda að notast við þá tungu)).

Þegar hún var loks orðin viss um að ég væri viss um að ég vildi að hún gerði þetta bað hún dóttur sína um það. Dóttirin þorði því ekki því hún trúði því ekki enn að ég vildi það. Maður sem líklega var sonur/bróðir þeirra tók mig loks að sér.

Það tók lengri tíma en ég hafði búist við og ég var orðin hálfstressuð af öllu stressinu í þessum konum sem fannst ég greinilega hafa svona hrikalega ó-konulegar þarfir. Þegar hillti undir verkslok hafði móðirin þó snúið við blaðinu og gat nú ekki ausið nægu lofi á nýja lúkkið: "I never, ever thought I would say this, but... you actually look more beautiful without it! Oh my god, I'm seeing this for the first time!" Hún fór semsagt allt að oflofi, sérstaklega þegar hún líkti mér við "the singer, what's her name, Sinéad O'Connor!" Sem er þó óneitanlega skemmtilegri samnefnari en þessi strákur sem grísirnir mínir á Lindarborg segja að ég sé eins og. Pétri mági finnst ég einsog GI Jane. Mér finnst ég bara rosa fín, mömmu finnst það líka.

Fleira í fréttum er að við Skarphéðinn munum flytjast á Seyðisfjörð um næstu mánaðamót. Og við hlökkum til!
Erla Elíasdóttir @ 12:17 ap.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER