maanantaina, huhtikuuta 21, 2008 |
Vitranir |
Jæja, myndi ég vilja segja, þá veit ég það. Núna veit ég nefnilega ekki, eða ósköp fátt. Ég veit ekki hvort ég kemst inn í námið sem ég sótti um. Ég veit ekki hvort ég fæ styrkinn sem ég ætla að sækja um. Ég veit ekki hvort ég klára að sækja um styrkinn sem ég ætla að sækja um. Ég veit ekki, veit ekki, veit ekki hvar auðkennislykillinn minn er.
Ég veit ekki afhverju ég væli svona mikið í sjálfri mér! Því ég veit í rauninni allt sem er að vita, í bili: Ég veit að ég er búin að sækja um, og kemst kannski inn. Ég veit að ég fæ kannski styrkinn, sem ég veit að ég ætla að sækja um. Ég veit líka hver myndi koma með mér, ef ég færi. Og bráðum veit ég allt sem eftir er. En mér líkar ekki biðin.
Í nótt dreymdi mig sund, töluvert stuttlega og jafnóafvitandi um það sem á undan fór og hitt sem á eftir kom. Dreymdi ekki sjálft sundið, heldur sturtuklefann að því loknu og í næstu sturtu var Vilhjálmur Bretaprins. Við Hafdís skiptumst á draumasögum í morgun og hún spurði, þegar hér var komið sögu, hvort hann hefði verið nakinn. Ég er ekki viss, en sennilega, það virtist amk eðlilegt miðað við aðstæður. Kynjaskipting sturtna var ekkert issjú, þetta bar alltsaman hinn hversdagslegasta sundkeim. Inntak ördraumsins var nokkurnveginn það, að ég brást við einsog hver annar ofkúl Íslendingur og lét bara eins og það kæmi mér ekkert við hver væri í sturtunni við hliðina og hversu frægur eða ekki hann kynni að vera, var m.ö.o. mjög upptekin af að vera sama. Honum var líka alveg sama. |
Erla Elíasdóttir @ 5:47 ip.  |
|
|