perjantaina, maaliskuuta 07, 2008
Hummusinn
í samlokunum í Hámu bragðast einsog plokkfiskur með karrí. Spes!

Í dag lagðist ég í tímaflakk um liðin sumur. Fyrst fór ég á Lindarborg. Á Krossfiskadeildinni voru skörð fyrir skildi, enda flest minna gömlu vina forfrömuð upp í Kuðungatign. Ný andlit voru fjöldamörg og nýgræðingar fyrra hausts hafa vaxið lygilega.
Næst fór ég á Vitatorg. Þaðan höfðu sömuleiðis ýmsir haldið á nýjar slóðir og í sætum þeirra sá ég mörg, ný, hrukkótt bros. Það er eins með hrukkur og breytingar, að þær verða farsællegast þegar orsakirnar eru í raun ekki aðrar en framrás tímans.

Þriðja heimsókn dagsins var til Ömmu frænku. Það kallaði ég hana alltaf. Þótt hún sinnti mér á við bestu ömmu vissi ég auðvitað að það var hún ekki, heldur systir afa og þar með frænka. En frænka hefur tæpast þótt nægur vegsemdartitill. Í öllu falli var hún amma mín frænka. Ég hefði auðvitað getað ávarpað hana með nafni, sem ég hef og gert síðustu ár, en þar sem nöfn okkar eru hið sama hefur mér kannski þótt það eitthvað skrítið. Amma frænka er mjög kölkuð í seinni tíð og það þykir mér stöðugt skrítið að upplifa. Hún var nefnilega eiturskörp, og virðist enn vera; sé hún á annað borð sæmilega hress er vel hægt að eiga við hana samræður og hún hlustar af athygli og svarar af skýrleika og spyr áfram eftir samhenginu. Og þá er bara að láta ekki slá sig út af laginu þegar hún spyr svo um það nákvæmlega sama þremur, fimm, sjö og tíu mínútum síðar. Mér þykir reyndar áhugavert í sjálfu sér að heyra hvernig ég dett í að fínísera eigin, sömu, svör og lýsingar sífellt betur með hverri endurtekningu, við þær sérstöku aðstæður að viðmælandi sé alltaf sá sami, en um leið glænýr.
Erla Elíasdóttir @ 8:09 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER