lauantaina, maaliskuuta 22, 2008 |
Gael García, Ísrael og beikon |
Áðan stóð ég í eldhúsinu og hnoðaði (bónuss)pítsudeig, þegar mér barst til eyrna spænskhreimuð enska Gaels García á leið upp stigaganginn. Engin ímynd, við eigum feimös nágranna.
Þar sem ég pítsaði hugsaði ég um mat, allskonar mat, líka vegan mat (því það er matur, og pítsan er það (þ.e. minn helmingur (ég er það samt ekki))). Og sumt er skrítið í hinum dýrfríu efnum, til dæmis vörurnar frá sænska fyrirtækinu Hälsans kök. Þær hef ég ekki keypt lengi, því bæði eru þær drulludýrar og villa á sér fullmiklar heimildir fyrir minn smekk. Fyrst eftir að hafa snúið mér frá kjöti fannst mér þessi feik fílingur þeirra allt að því góður, en seinna varð hann bara skrítinn. Allar vörurnar frá HK virðast framleiddar með því markmiði að bragðast einsog eilítið óljós dýrategund, þrátt fyrir að innihalda engar slíkar. Ég fékk sesam-nagga frá þeim um daginn þar sem ég var gestkomandi. Þeir brögðuðust ágætlega, en ef ég hugsaði um kjúkling fannst mér bragðið næstum alveg einsog kjúklingur, um fisk og þeir brögðuðust aðeins meira einsog fiskur. Hafi maður tekið afstöðu gegn hvorutveggja eru slík líkindi meira en hálfóþægileg. Svo er fáránlegt að hægt sé að simjúleita dýrabragð með réttum hlutföllum af sojaprótíni, laukpúlveri og bindiefnum. Við lestur innihaldsefna rak ég augun ennfremur í það að varan er alls ekki framleidd í Svíþjóð, heldur ÍSRAEL! Hversu últra, alltof asnalegt er að kaupa eitthvert innflutt bull, sem ég skil ekki einusinni úr hverju er, á uppsprengdu verði, og flutningskostnað lofthjúpsins, þegar ég gæti eins farið í Bónus og keypt grímulaus baunabuff frá Grími kokki? Eða bara keypt kjöt, vilji svo til að ég lifi vart án bragðs sem er næstum einsog af því, en aðallega einsog af plati? Þetta má kannski kallast grænmetisfæði, en grænt er það ekki.
Svo var ég á Prikinu um daginn. Við Haha deildum með okkur smáréttinum Two amigos, sem samanstendur af nokkurra sorta ostastöngum og kartöflubátum. Þrátt fyrir tvíund nafnsins var þrennt af öllu, sem þó var viðráðanlegt pirr. Á kartöfluskeljunum voru hinsvegar rauðar tætlur sem ég hélt fyrst vera tómata, en fór svo að gruna beikon. Ég spurði þjónustustúlkuna hvað þetta væri og hún sagði beikon. Ég benti á að það stæði ekki á matseðlinum og væri miður lystugt fólki sem ekki kærði sig um kjöt. Þá kveikti hún á perunni og leiðrétti sig, þetta væri sojabeikon, sem ég fann við nánari athugun að var hárrétt. En hversu glatað er samt að setja GERVIBEIKON á mat og halda að allir fíli það óboðið? Álíka glatað og grænmetisæta að tærast upp af beikonþrá. Aðeins meira glatað en sojaostur (hann er ekki einusinni laktósafrír!). Fíla einusinni allar kjötætur alvörubeikon? Borða svínfrelsaðir trúflokkar sojabeikon? Ég held ég hætti bara að borða annarra manna mat. |
Erla Elíasdóttir @ 7:19 ip.  |
|
|