maanantaina, tammikuuta 21, 2008 |
Þráavarnarþynnka |
Mér líður bölvanlega og hef engum um að kenna nema sjálfri mér. Í gærkvöld náðu hungrið og letin sameiginlegri yfirhönd með þeim afleiðingum að ég fór útí Krambó og verslaði bakka af dularfullum baunarétti frá 1944. Hefði ég farið að dæmi matvælafræðingsins sem lagði hverja máltíð í dóm lyktarskynsins hefði kannski farið betur, því lyktin var hrikalega skrýtin, einsog ég ímynda mér að ofnæmi hljóti að lykta. Samvinna hungurs og leti hafði hinsvegar rænt mig dómgreindinni og ég gúffaði þessu í mig án nánari ígrundunar. (Að því loknu var ég n.b. alveg jafn hungruð og áður.) Skömmu síðar leið mér illa. Í morgun leið mér enn jafn illa. Og þó, ekki beint illa, heldur einsog innyflin væru alltíeinu úr plasti, og líkaminn hefði ofnæmi fyrir plasti. Alltént ekki vel. Það bætti varla úr skák (meira nöldur framundan, meiri nöldurveitan sem þetta er að verða) að í Krambó tókum við líka þá verstu kvikmynd sem ég hef séð í seinni tíð. Hún er eftir leikstjóra Ghost World. Leikendur m.a. Jim Broadbent, Anjelica Huston, John Malkovich, Steve Buscemi og bróðirinn í My name is Earl. Það eru fleiri en nokkrir fyndnir punktar í henni, sumir mjög fyndnir. Og samt er eins og allt leggist á eitt við að skapa aulahrollsvalda og tilgerð og samhengisleysi og lausa enda af slæmu gerðinni, auk þess sem aðalpersónan er óóóþolandi.
En stundum er gott að láta vondu myndirnar styrkja samanburðargrundvöllinn, og nú líður mér betur en í morgun eða áðan. Mamma á afmæli og veðrið er fallegt. Súpan mín verður sífellt betri, og svo fékk ég smotterí birt. |
Erla Elíasdóttir @ 1:49 ip.  |
|
|