tiistaina, joulukuuta 18, 2007
Án


Rúmu hálfu ári síðar hefur sársaukinn slævst en myndirnar eru á sínum stað og setja undir sig oddinn er minnst varir. Hennar vegna er ég fegin að við fluttum, kisunnar okkar sem ekkert nafn náði yfir, því nóg minnir á hana samt.
Hún var skráður meðgjafi hvers jólapakka, fékk skraut til narts og rækjur til átu og krafsaði jafnt í svefnkytrugluggann helgar nætur sem aðrar.
Gafst ekki upp á þrotlausu príli uppeftir honum, óopnanlegum, fyrren ég fjarlægði pottablómið, sem var henni stökkpallur, sem hún hafði þá næstum drepið. Krafsið heyrði ég enn í sumar sem leið, þegar hún lá í garðholunni handan rúðunnar. Það var líka fyrsta sumarið hennar og mér fannst hún eiga meira í því en við, sem þó héngum upprétt og hendur okkar með síðum, til vitnis um hlutverk sem var. En blómin lifa enn og þau get ég þó vökvað, enda alltaf það fallegast sem maður sinnir sjálfur.
Erla Elíasdóttir @ 11:12 ap.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER