perjantaina, joulukuuta 28, 2007 |
|
Ég er svo ættrækin í seinni tíð, sem kemur sér ágætlega yfir jólavertíðina. Þá eru fjarstaddir líka nær en allajafna og einkum hefur langamma mín, Ingibjörg Einarsdóttir Vestmann, leitað á hug minn undanfarið, en hún hefði orðið 88 ára á jóladag. Hún lést að undangengnum veikindum fyrir 19 árum síðan, seint á aðventu. Ég man mömmu standa við símaborðið, í miðju gangsins þrönga á Freyjugötunni. Gegnt speglinum, en hún horfði ekki í spegilinn heldur á mig, sem sá hana líka í speglinum, og sagði mér með símtólið í hendi að hún amma Ingí væri dáin.
Ég veit það, fremur en man, að ég var mikið hjá henni að Hringbraut 24. Man þó plokkfisk og Mikkamúshandklæði og að lita í litabók undir stofusófanum, og kisuna hennar og kaktusana. Það er til myndband af mér í stofunni hennar á vordögum 1987, nánar tiltekið 24ra ára afmælisdegi föður míns (sem hélt á upptökuvélinni og þessvegna er myndbandið af mér í fullri stofu fólks), en þá kunni ég hreint ekkert betur við mig í miðpunkti athyglinnar en ég hef gert síðan. Breiddi teppi yfir höfuð mér og sagðist aðspurð heita Engin.
Einhverju sinni í skólanum, kannski í 5. eða 6. bekk, vorum við að læra um Vestur-Íslendinga og kennarinn innti okkur eftir vitneskju um þennan leyndardómsfulla þjóðflokk. Ég rétti upp hönd og sagði, að langamma mín hefði verið Vestur-Íslendingur. Já en. Sko, þau komu aftur. Þegar mamma hennar dó. Aftur frá Kanada. Og einsog kennarinn benti á, og brosti breitt, var það þó lán í sviplegum dauða Guðríðar Nikulásdóttur, fjarri fósturmoldu, að seinna gat dóttir hennar eignast langömmustelpu uppi á Íslandi sem nú gekk í Austurbæjarskólann. Ég sá ekki allskostar hvernig þau hefðu átt að sakna mín.

En nú sakna ég ömmu Ingíar, og gæfi mikið fyrir að geta spurt hana í þaula um þetta alltsaman. Hvernig henni hafi þótt að flytjast af fæðingarjörðinni 11 ára gömul og setjast að á Akranesi, þar sem þau systkin voru að einhverju leyti alin upp af móðursystur Nikulásdóttur. Hana veit ég það eitt um að hún var ung svikin í tryggðum af heitmanninum Einari, sem hljópst á brott til Kanada með Guðríði systur hennar.
Ég fann þó þessa mynd af Einari Guðmundi Bjarnasyni, langalangafa mínum, sem brottfluttur tók sér nafnið Vestmann. Fengin að láni á vef Ljósmyndasafns Akraness, skráður myndhöfundur Árni Böðvarsson. |
Erla Elíasdóttir @ 8:38 ip.  |
|
|