perjantaina, joulukuuta 07, 2007 |
Fúlegg leit dagsins ljós |
Olían var búin, svo ég pannaði tvö baunabuff í ökó-sólblómafeiti og náði í eitt egg í ísskápinn til að vega salt á pönnuhandfanginu meðan hitan fitnaði. Nú eru tæp þrjú ár síðan ég hætti að borða kjöt og kannski tvö síðan fisk og mjólkurvörum hef ég haldið í lágmarki, sökum sjálfgreinds óþols, en egg hef ég alltaf gúterað, þá sérstaklega þessi í grænu bökkunum sem lofa hænum hamingju á sólríkum ökrum.
Mér hefur sjaldan/aldrei brugðið viðlíka mikið og þegar úr egginu vall illþefjandi, svartblandinn vibbi sem hóf að stikna kringum buffin mín með illkvittnislegu kraumi. Það jók enn á kæti hans að ég skyldi vera í of miklu sjokki til að kippa pönnunni strax af, heldur stóð bara og dó næstum úr óþef og hugsaði svo mikið um hvort ég væri kannski að fara að æla oní ógeðið að ég gat það ekki einusinni, stóð bara. Eftir um sjö sekúndna steik var lyktin í eldhúsinu nokkurnveginn einsog kæst skata hefði mallað þar daglangt, án minnsta ljóra til loftlausnar. Nema miklu verri, enda skata vel æt og lyktin ekki nærþví svona vond, en það var akkúrat sama sort af óþef.
Mér er til efs að ég geti borðað egg á næstunni eða nokkurntímann aftur. Ég er almennt ekki klígjugjörn, en þetta var heldur engin almenn lykt. Ætli helsta ástæða viðbjóðsins sem þetta vakti mér sé ekki, hvað ég áttaði mig illþyrmilega á því að þetta hefði getað verið fugl. Mín fyrsta hugsun, þegar ég sá svartar tætlur synda í fitublandinni hvítunni, var nefnilega sú að það væru fjaðrir. Enn var heilmikið af vibba í skurninni, sem ég hafði lagt aftur á handfangið í fáti og meðan ég stóð og hugsaði um að kúgast langaði mig að gá hvað eftir væri, en þorði ekki. Þegar ég hafði slökkt á hellunni og hent öllu í ruslið og skrúbbað pönnuna og skrúbbað uppþvottaburstann og farið út með ruslið og þvegið mér um hendurnar og loftað út og ekki getað hugsað til þess hvað ég væri ennþá ótrúlega svöng, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta hefði sennilega bara verið einhver skemmd. Eftir sem áður veit ég ekki hvort ég geti horft framhjá því aftur að hvert einasta egg skuli vera fugl Schrödingers. Nema að líkurnar eru sem betur fer ekki helmings, en samt. Eiginlega of miklar til að ég kunni við það.
- - -
p.s. Sögnin panna þýðir að setja e-ð e-t, já, á finnsku.
p.p.s. Ég sakna þess að tala um að eitthvað sé ökó. Einusinni var ökó-bjór allsstaðar.
p.p.p.s. Veiii, nú verður enn skemmtilegra að bjóða mér í mat! |
Erla Elíasdóttir @ 7:36 ip.  |
|
|