torstaina, marraskuuta 01, 2007 |
Böggablogg |
Því eru ofboð lítil takmörk sett, áreitisþoli mínu, á langdreginni fimmtudagskvöldvakt endalausrar viku. Fyrir hálftíma sat ég (og sit hér reyndar enn), matarþurfi, svefnþurfi, afþreyingarþurfi og hafði einskis til að hlakka utan strætóferðar að tveimur tímum liðnum. Fann banana inni í eldhúsi, kom með hann fram og hóf matvant maul. Hraut þá ekki viðbótin hin síðari úr framanverðum efrigómi, með lítilli viðhöfn en þeim mun ókræsilegri lykt. Ég sé því fram á vatnsílát á náttborðinu uns bót ræðst á, til varnar kæfisvefni af tannavöldum.
Annars minnir mig það þýði eitthvað magnþrungið, að dreyma tennur. Um daginn dreymdi mig til dæmis að neðri tanngarðurinn flettist frá gómi í heilu lagi, svipað og þegar frævolsið er losað frá kjöti hunangsmelónu. Kannski blæddi.
Í fyrsta eða öðrum bekk fór mamma með mig uppá Slysó vegna barnatannar sem ratað hafði djúpt inní ystu myrkur hlustar. Þetta var, ætti ég að segja sembeturfer, áður en hún sprakk í mér hljóðhimnan? En það var kannski í hinu eyranu.
Það er eiginlega fáránlegt, hvað ég hef lent í mörgum álkulegum hrakföllum án þess þó að brjóta nokkrusinni í mér bein.
Framhald í næsta þætti... |
Erla Elíasdóttir @ 8:40 ip.  |
|
|