tiistaina, lokakuuta 16, 2007
Turnoff: Computer

Frá og með síðustu viku eru nýjar framtennur og nýtt hár það nýjasta, en tennurnar voru fyrir mistök smíðaðar hvor af sínum tannsmið. Fínasta smíð, báðar tvær, en bera þess merki að fyrri smiðurinn fílar kúpta lagið á meðan sá seinni kýs frekar hið hvassbrýnda. Nínu datt í hug að ég segðist hafa aðra frá móður og hina frá föður.
Nýja hárið er öllu samhentara, ég prísa mig einkum sæla að hafa ekki ljótara höfuðlag, eftir að mamma benti á hnakka minn sem sérlegt dæmi um heppilegar föðurerfðir.



Annars reyni ég að læra, og fleira, eða reyna. Gærdaginn hóf ég á bókhlöðunni en gekk svo í óvæntan barndóm og sat á kaffihúsi í sjö klukkutíma. Allt um það verður reynt að útskrifast í vor og hef ég því til framhalds fengið augastað á stað. Við hyggjum jafnvel á skoðunartúr á vordögum.



Annars, þriðja er ég alltaf á leiðinni að úthella óbeit minni á samtökunum PETA. Skráði mig á póstlista þeirra um árið, nýfrelsuð til hins dýrlega rétttrúnaðar. Það virtist svosem sniðugt; þeir eiga uppskriftir og allskonar góða tengla og lista, t.d. yfir prófendur dýra og ekki. Ég fæ enn póst frá þeim, en mikið hef ég nú fengið mig fullsadda af fréttum af glamúrkeppninni árlegu "The World's Sexiest Vegetarian", og því að hasbeen á borð við Alyssu Milano og Pamelu Anderson myndu "rather go naked". Sérlegt steitment úr munni kvenna sem komust í sviðsljósið á einhverju öðru en leikhæfileikum. Hverskonar lítilsvirðing er það við fólk, sama hvað það étur, að láta sem svona lagað geri málstaðinn eitthvað girnilegri? Steininn tók úr eftir Body Shop/L'Oréal skandalinn, en þá fór Body Shop af ekki-prófa-listanum yfir á prófa-listann og aftur til baka á grunsamlegum mettíma. Mér líkar ekki að bendla mig við samtök sem eru stærri en ég hef hugmynd um og er stjórnað af hagsmunatengdum öflum sem ég hef ekki nokkra sýn yfir. Svo eru uppskriftirnar brenndar því leiðindamarki að uppistaðan í nánast hverri þeirra er einhverskonar gervikjöt í sérstakri útfærslu einhvers brands m.ö.o. Peta-sponsors.

Að lokum skal það sagt að þrátt fyrir að leita á mið meginstraumsins með téðum hætti eru PETA hrikalega öfgafull samtök, sem virðast grínlaust berjast fyrir alheims-veganismus og skilyrðislausum skiptum úr leðri til vínyls. Hvergi er að sjá vilja til að koma af stað málefnalegri umræðu, vekja fólk til umhugsunar, viðurkenna tilverurétt alætna, heldur aðeins reynt að sjokkera með hryllingsmyndum sem leynilegir útsendarar PETA hafa lagt sig í lífshættu við að ná í tilraunaherbúðum illskunnar (glamúríseríngar-syndrómið aftur). Öfgar eru ekki til þess gerðar að ná til fjöldans með neinum vitrænum hætti, heldur vekja þær í besta falli költæsingu einmana sálna í leit að lífshillu.


Ástarkveðjur,


ykkar.
Erla Elíasdóttir @ 11:23 ap.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER