perjantaina, syyskuuta 07, 2007 |
Gamlar sögur, frá gömlu húsi |
Á föstudögum er ég tímalaus, en lufsaðist niðrí nemendaskrá í morgun til innlagnar undanþáguskjals. Eftir göngutúr, biðröð og eyðublað var ég talsvert óvissari um nauðsyn undanþágunnar, virkjaði hana samt og á nú margar, margar einingar í töflu. Gangan var þó létt heimleiðis og Kate Bush böstaði rauðvínsský úr vegi mér upp holtið.
Önnin lítur annars afar vel út, Maare talar finnsku og ég segi ýmislegt sem ég er næstum viss um hvað þýðir. Í gær held ég að hún hafi sagst hafa safnað kaktusum í Finnlandi, en eigi nú bara einn. Allavega tjáði ég henni að Ingibjörg langamma, sem bjó í sama húsi og Maare leigir íbúð í, hefði átt ógnar marga. Kaktusar eru eitt af því sem ég hef mig grunaða um að heillast fyrst og fremst af afþví það minnir mig á eitthvað sem amma Ingi eða amma Elsa áttu fyrir löngu, í gráu minningunum sem þó eru bjartastar. Ég segi Maare þetta kannski síðar.
Við fluttum síðustu helgi! Upp götuna og inn á foreldra mína, það er ágætt. Við erum jú öll svo ágæt, sérstaklega Snati sem varð tveggja ára í gær og virðist loks hafa meðtekið að Skarpi sé hvorki ógnvaldur né innbrotsþjófur, heldur jafnvel fullgildur fjölskyldumeðlimur og fundvís með eindæmum.
Og margt fleira ætla ég, sífellt, að hripa hér, til eigin minnis þó ekki væri annars. Til dæmis söguna af nýju postulínstönninni minni, það er framtönn. Hafdísi finnst sem skíragull hefði hæft betur. Annars er mér nokk sama; eftir áratug af illa viðgerðum framtönnum og tannlæknafúsk á heimsmælikvarða er standardinn ekki svo hár. Hún er alltént falleg, nokkuð ólík hinni, enda verður skipt um hana líka. Núna líta þær tæpast út fyrir að vera skyldar, sé vel að gáð, en andlitið allt er ósamhverft hvort eð er. Einhverntímann, er mér fannst hvað skemmtilegast að pota í eigin of- eða vankanta, fór það kannski í taugarnar á mér þótt nú kunni ég að meta það. Næstum eins mikið og mjóu hnén, með aðeins lengri fótleggi væri ég einsog hálf hrossafluga. Mamma segir alltaf að þær séu einsog ballerínur. |
Erla Elíasdóttir @ 1:00 ip.  |
|
|