(Stundum vildi ég geta séð tilviljanir í fleiru, og það er skrítið (og ekki aðeins hér) að viljinn dugi ekki til.)
Vaasa var yndisleg, ég lærði fullt og gerði fullt og var fullt. Eldaði mat og keypti bækur og eignaðist vini og hjólaði og synti í sjó og ráfaði um markaði og jojkaði um borð í bát. Joensuu var líka góð þótt einungis næðist þar tæpur sólarhringur sökum ýmissa óhentugleika, einkum hvað snerti leiðakerfi frá austri og endilangt til vesturs. Eftir 12 stunda, helkrókótta rútuferðina tilbaka fannst mér ég koma innilega heim að skítugu stúdentaíbúðinni á Palosaari/Brändö/Eldey, og ekki síður að herbergisfélaga mínum, hugsanlega mér ólíkustu manneskju sem ég hefi komist í návígi við, sem ég sakna ekki minna en hins.
Það var hálfleitt að fara heim í þögnina eftir þriggja vikna framfarir. En svo gott að hitta Skarpasinn, sem verður jú vonandi með í næstu för.
Veit ekki hvort segja skuli frekar frá, en kannski sýna myndir, ég tók myndir! Ég var að hugsa um að treina mér efnið; birta mynd per færslu, auk texta. Lesandi gæti t.d. varpað fram stikkorði („nefbor“, „nefreiði“, „snjóhlébarði“) og ég síðan fundið viðeigandi mynd. Hmm? |