maanantaina, heinäkuuta 09, 2007 |
Hin mikla gjöf |
Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt
og mannleg ránshönd seint fær komizt að,
er vitund þess að verða aldrei neitt.
Mín vinnulaun og sigurgleði er það.
Margt getur skeð. Og nú er heimsstríð háð,
og hönd hvers manns er kreppt um stál og blý.
En eitt er til, sem ei með vopni er náð,
þótt allra landa herir sæki að því.
Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjózku, veilt og hálft,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.
-Steinn Steinarr
Og hananú. En minntist ég á árssambúð? Að réttu er sameiningin árs um þessar mundir og sambúð síðan í desember. Annars hafa dagar okkar og nætur bráðnað jafnóðum niðurí seigfljótandi læk sem hefur litlar spurnir haft af tímans förum, þótt að umfangi kunni hann að hafa aukist með leysingum hækkandi sólar. Það er lækur, og allt eins mikið haf, og þótt yfirborðið kunni veglaust að virðast á stundum verður botninn sem betur fer aldrei numinn án snertingar við farveginn.
Í gær skrapp ég til mömmu að strauja (í fyrsta skipti), hún var að hlusta á Dionne Warwick og ég minntist þess hversu mikið ég hlustaði á hana fyrir fjórum, fimm... nei, þá voru allt í einu liðin sjö ár síðan ég var 16 ára.* Ha. Það aftraði mér þó ekki frá söng, en mamma horfði skrítbrosandi á mig og lagði svo guðsnafn við þann hégóma að ég væri alveg einsog hannpabbiminn.
Svo var haldið í kokteilboð í Kögurseli, seinna borðað úti með heitmanninum (ég að vera pun-tended).
- - -
*Hlustaði mikið á Dionne Warwick sko, þegar ég var 16 ára. Ekki mömmu. |
Erla Elíasdóttir @ 12:31 ap.  |
|
|