keskiviikkona, toukokuuta 09, 2007 |
Það er þó alltaf slegist um Eirík... |
Nú virðist framsókn skyndilega réttnefni um leið og vinstrið er sagt tapa fylgi og það má velta því fyrir sér hvað slíkar fréttir segi raunverulega um skoðanaflökt kjósenda. Kannski sýnir tölfræðin okkur afleiðingar þess að æ fleiri leggi árum í mótstöðukænur og stingi sér á örugg vit hyldýpisins. Tölfræðin gæti einnig, og að mínu mati allt eins líklega, verið orsök slíkra breytinga, því hver vill vera þekktur fyrir að kjósa flokkinn sem enginn annar ætlar að kjósa? Það er allavega hægt að ímynda sér að þannig sé sumum farið. Í framhaldi af því er hægt að efast um réttmæti þess að meta atkvæði til jafns, óháð því hvort höndin á bak við krossinn hafi yfirleitt vitað sjálf afhverju hann lenti einmitt þar, en það sagði víst enginn að lýðræði væri fullkomið. Ég veit hvað ég mun kjósa að því gefnu að ég skili ekki auðu, sem er hreint ekki gefið, því það er bara svo erfitt að trúa nokkru sem sagt er í tengslum við þessa skrumkeppni. Þó hefur mér löngum látið betur að treysta fólki en ekki og þykir það öllu ákjósanlegri kostur, svo ef einhver vill reyna að sannfæra mig um að einhver flokkur sé öðrum betri (með öðrum rökum en að hinir séu verri), væri það velkomið. Annars kýs ég nú örugglega eitthvað, samt, upp á mótvægið þó ekki væri annað, og svo er jú lítið steitment að flokkast með ógildum. |
Erla Elíasdóttir @ 5:58 ip.  |
|
|