torstaina, tammikuuta 25, 2007
Enn eitt í vinnunni
Ég er stungin fyrirtíðaspennu. Ekki þó þrungin, en smá stungin. Áðan sagði Ceca að ég væri engill, en væri ég þá með fyrirtíðaspennu? (Hún sagði það afþví ég fór fram að ljósrita svo hún gæti horft á leikinn á meðan.)



Það er eitt sem ég hef verið að pæla í. Ekki er þá sagt að ég sé fyrst til að pæla í því, óneiíaldeilis. Þetta er ein þeirra pælinga sem hefur verið pæld og greind í drasl af verkefnalitlum haushrærum eftirstríðsáranna, því auðvitað kom að því stigi mannlegrar sjálfhverfu að okkur nægði ekki lengur að vera sagt hvernig við værum; við vildum líka vita hvers vegna við værum þannig. Og loks kom einhverjum í yfirfullan hug að ofaná allar þáorðnar og misvísandi staðhæfingar um erfðir, umhverfi, blóðflokk, stjörnumerki, háralit og sjónvarpsdagskrá væri enn einum blórabögglinum bætandi í hóp áhrifavalda á persónuleikann: fæðingarröð systkina.



Á meðan ýmsir hafa lagt orð sín í belg til eflingar þessari kenningu hafa aðrir kallað hana drasl, og jafnvel fært rök fyrir. Fróðleikssoltnum lesendum til vísra vonbrigða náðum við pælingin ekki að kynna mér með eða á móti rök þessa góða fólks. Það sem ég hinsvegar gerði var að renna yfir nokkrar randómar, velsnyrtar analýsur og taka eitt quiz, svona rétt til að ganga úr skugga um að persónuleikinn minn væri ekki að svíkja lit. Niðurstöður: fullt af erkitýpísku blablai um leiðtogahæfileika fyrstubarna, frelsisfrelsi annarrabarna og einrænishæfni einkabarna, alltsaman smurt þykkum fyrirvara um undantekningar og einstök dæmi, sem er fyndið í ljósi þess hvað skilin eru annars skörp og fullyrðingarnar sterkar (persónuleikar a) og b) geta aldrei virkað í sambandi, nema persónuleiki b) sé í raun með fúnksjónir a) vegna þess hve langt er á milli hans og næsta systkinis á undan/eftir.). Merkilegt þó, að lítið sem ekkert virtist fókuserað á hinn alræmda komplex miðjubarnsins; allt gekk þetta frekar út á fyrsta, annað, þriðja. Annað merkilegt: að þessi orðræða skuli ekki hafa fest sig í sessi í daglegu tali. Láttekkisvona, þú ert svo mikið einkabarn/fyrstabarn/annaðbarn/þriðjabarn! Býður jafnvel uppá þegar góðkunnar skammstafanir. Ég veit samt ekki hvað EB er. Ég var smástund að fatta afhverju ég kannaðist við ÞB og hvað það væri. (Það er skammstöfun íþrótta-og landafræðikennara úr grunnskóla mínum.)



Af öllu að dæma er ég eiturtýpískt fyrstabarn, sérkryddað þeim undantekningum sem best sanna niðurstöðuna. Gaman.
Erla Elíasdóttir @ 8:05 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER