tiistaina, tammikuuta 23, 2007
Elsku litli grís
(frelsi ≠ helsi...

frjáls ≠ háls? (hyggja?))



Um daginn fann ég bók undir sófanum. Reyndar er ég alltaf að finna undir sófanum; inniskó og jólaskraut og garnkuðlur og m.ö.o. allskonar dót sem á það sameiginlegt að Kisu finnst gaman að veiða það. Það skrítna við þessa bók var þó ekki sýnd vantrú Kisu á afþreyingargildi bókmennta, heldur að við nánari athugun reyndist hvorugt okkar Skarphéðins kannast við hana. Í bókinni eru myndskreytingar Edward Gorey við kattljóðabálk T.S.Eliot, hvern mér skilst að hafi inspírerað Andrew L.W. til samningar ómérséðs músikals um árið.



Fyrsta ljóðið fannst mér skemmtilegast, allnokk við fyrsta yfirlit. Þar er fjallað um nafngiftir katta og rök leidd að því að hver köttur þurfi þrjú nöfn. Eitt hversdags, annað spari sem enginn annar köttur ber og þriðja sem enginn veit utan kattarins sjálfs, sem veltir því fyrir sér löngum stundum með íhyglissvip.

Nú hefur okkur einhvernveginn mistekist að koma nafni á Kisu svo heitið geti. Við höfum reynt að kalla hana (Snúð, Skottlu, Grís, Kúskús, Geislmundu) en á endanum verður hún alltaf Kisa. Hún er svo mikil kisa, jafnvel meiri en grís!

En fyrst Kisa dugir hversdags hlýtur Grís að gera það spari, og varla þarf að taka fram ógagn þess að við veltum okkur uppúr því þriðja.
Erla Elíasdóttir @ 6:19 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER