keskiviikkona, tammikuuta 17, 2007 |
349 |
Ég sit í vinnunni og rek á eftir klukkunni og velti því fyrir mér hversu mikið það kynni að hafa auðgað líf mitt að flytja að heiman svosem þremur, fjórum árum fyrr. En það er flókin spurning, og ég velti því fyrir mér hversu mikið það kynni að auðga líf mitt að vita svarið, og ég velti því fyrir mér hversu flókið svarið kunni að vera.
Þegar ég var lítil tók ég alltaf til í herberginu mínu. Ég braut líka saman fötin mín og ég greiddi kögrið á gólfmottunni og ég stóð uppi á stól til að geta jafnað bilið milli gardínulykkjanna. Upp á millimetra. Svo var það sennilega um 11 ára aldurinn eða svo, sem fór að bera á stefnubreytingu í þessum efnum og um það leyti sem gelgjan kikkaði inn (þótt vissulega sé engan veginn víst að orsakasamband liggi þar á milli) var svo komið að ég gerði ekki handtak í átt að tiltekt ótilneydd og landslag herbergis míns tók að einkennast af fatahrúgum og draslhrúgum og hrúguhrúgum og ég held satt að segja að síðan umrædd gelgja tók að gera vart við sig hafi ég varla leitt hugann að skipulagningu gardínulykkja fyrren þegar ég skrifaði um þær rétt í þessu. Ástand hrúganna vildi ég hreint ekki líta á sem ástand, heldur einungis eðlilega afleiðingu þess að mér væri ætlað að gera að staðaldri eitthvað sem ég sá ekki tilgang með yfirhöfuð, og því síður fyrst móðir mín sá ástæðu til að þykja það sjálfsagt fyrir mína hönd. Ástandið varð henni reyndar óþrjótandi nöldurnáma, og uppskar hún ótal rifrildi og hurðaskelli og dramatík, að ógleymdum ör-einstaka semings- og hatursfullum tiltektum.
Var ég þá hreinlætismanískur krakki og óhemju latur og óhreinlátur unglingur? (Alhæfingar: börn nenna öllu, þar með töldu reglubundnum tiltektum í annarra manna húsum. Unglingar nenna fáu, síst því sem þeim líður ágætlega án, og sífellt er nöldrað í þeim um að gera, af fólki sem leyfir þeim samt ekki að fara sínu fram að öllu leyti (sem þó væri e.t.v. slæm hugmynd í flestum tilfellum).) Svo ég haldi áfram að sálgreina sjálfa mig að mörkum ógleði, þá var ég að ýmsu leyti afar manískur krakki. Aðð því sögðu búa einnig í mér tilhneigingar til öfgakenndrar hegðunar. Taki ég til, þá tek ég til, en taki ég ekki til, þá heldur móðir mín að ég þurfi á geðhjálp að halda.
Síðan ég flutti að heiman tek ég til, og vaska upp, og ryksuga jafnvel við hátíðleg tækifæri og mér finnst það mjög gaman (eða, allavega nógu gaman til að gera það, því þætti mér það ekkert gaman myndi ég aldrei gera það, sorglegt en satt).
Mér finnst líka gaman að vita, hvað mér finnst gaman og ekki, rétt einsog að vita hver mér finnst gaman og hver veldur mér ógleði, sem betur fer afskaplega fáir.
Mér finnst þessi færsla ekki skemmtileg, en hugmyndin, hún var það, allavega smá. |
Erla Elíasdóttir @ 9:04 ip.  |
|
|