torstaina, marraskuuta 30, 2006
Síóelleikooóla
Ég hef lítið keppt um ævina, enda sjaldnast átt við þesslags áhugamál að stríða, en á föstudaginn tók ég þátt í karókíkeppni Kennaraháskólans. Mætti snemmst ásamt sósíal-ljóninu Aldísi og þótt tómlegt væri í fyrstu tók mæting fljótlega við sér, meðal annars í formum Huldu og Bjargar. Áðuren keppnin hófst var opinn mikki, sem kallað er, á sviðinu og nýttum við A og H okkur að sjálfsögðu tækifærið til að taka Girls just wanna have fun. (Fagnað var eflaust gífurlega, ég heyrði það bara ekki. Maður er hálf blindur og heyrnarlaus þarna uppi.)
Hófust svo leikar. Þrísetin dómnefnd skartaði einni konu, einum frægum og einum sköllóttum, sem hafði þann hattinn á að kommentera á frammistöðu milli laga. Þagað var þó þunnu hljóði sitthvorumegin skalla, og vakti það viss vonbrigði skarans. Núnú, skemmst er frá því að skýra að mikill fjöldi mis-skemmtilegra atriða leit skammdegi þessa kvölds, um of til að gera hér sæmileg skil og mun ég því einbeina lýsingu minni að því sem helst situr eftir nú, tæpri viku síðar: mínu eigin.



Með betri mikkann, fætur á sviði og ljós í augum hóf ég bjórradda söng við fullsterkt bakköpp Geislmundar Davíðs og vissi vart af mér fyrren helvítis kerfið þagnaði í miðri setningu og lagi. Byrjað var frá byrjun og ég byrjaði frá byrjun og það stoppaði aftur á sama stað. Ekki var blásið til þriðju tilraunar, aðeins klapps, og tók þvínæst Dómskalli að skína áliti sínu upp til mín. Var það eitthvað á þá leið að meðferð mín á söngnum til klæðskipta karlsins Lolu hefði bara verið nokkuð góð, jah, eða svona, já, mikið testosterón íessu! Ég steig af sviði, gekk til sætis og fannst ár hafa liðið. Ekki svo að skilja að hafi verið ógaman, það var mjög gaman. Og þótt kommenteringar kvöldsins hafi á stundum siglt á grynnstu vöð var ég sátt við mínar, eða í það minnsta þá lýsingu að Lola verði ekki tekin án testosteróns. Þessum einhverskyns drag-fíl sem í mér býr þætti allavega gaman að trúa að það hafi tekist. Eitthvað við það... ég veit að mér þætti mun skemmtilegra að mála mig, væri ég strákur.
Erla Elíasdóttir @ 6:39 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER