sunnuntai, maaliskuuta 05, 2006 |
Endurvinnsla |
Ég get verið afspyrnuslæm í að áætla magn eða umfang hluta. Á eðlilega síst við hið augljósa, áþreifanlega, t.d. í matargerð, en á sérstaklega við um mínútu- og metrafjölda, helst þá senti og kíló, sama hvort er. Tugmetrar valda minnstum vanda þareð alltaf má þýða þá yfirí ex margar Hallgrímskirkjur. Hallgrímskirkja, mér fannst hún ekki falleg en samt þótti mér leiðinlegt þegar afi sagði hana ljóta. Þá skildi ég að sennilega þætti mér vænt um hana, sem ég hafði aldrei velt fyrir mér fyrr; hún var bara eitt þeirra sjálfsögðu fyrirbæra sem einkenndi umhverfið og kannski meira en það, þarsem hún gnæfði yfir það og fyrir fimmtíukall mátti taka lyftuna upp í turninn, skyggnast yfir, útfyrir hinn þekkta heim og stilla tíma hans eftir geðþótta þangaðtil vörðurinn rak mann niðrá jörðina aftur. Skólavörðuholtið var miðja alls og einskis, bókstaflega næsta nákvæmur miðpunktur leiðarinnar milli annarsvegar heimilis míns, hinsvegar Austurbæjarskólans og Sundhallarinnar. Frá hausti ársins 1990 og fram til vors ársins 2000 gekk ég auk þess yfir holtið á bilinu tvisvar og allt uppí fjórum sinnum í viku hvers vetrar á leið í tónmenntaskólann við Lindargötu. Einföld leið; upp Njarðargötuna og niður niður niður Frakkastíginn og ekki svo löng heldur, en sökum fyrrnefndrar vanhæfni var ég lengi vel sannfærð um að þurfa minnst fimmtán og helst fleiri mínútur ef ég vildi ekki mæta seint, og setti þá ætlun ekki í samhengi við það að ég var alltaf annaðhvort sein eða, oftar, alltað tíu mínútum of snemma. Þegar við það er bætt að í stundaskrá sumra vetra voru alllöng göp milli tíma, má ljóst vera að umtalsverðum hluta bernsku minnar var eytt í biðstofunni á Lindargötu 51. Hún er stór í minningunni; salur eiginlega, frekar en stofa. Á stólunum muskubleikt áklæði, á veggjunum eftirprentanir af Louisu Matthíasdóttur og í bókahillunni sama lesefnið ár eftir ár, lengur. Einhver hellingur af Rasmus Klumpi (hvað er það, Wind in the Willows hittir Enid Blyton hittir Scooby-Doo), Púkablístran um Sæmund Fróða, sem ég las óhóflega oft, María veimiltíta eftir Ulf Stark, sem ég las oftar. Stundum tók ég með mér að heiman, en það var sjaldnar. Restina af hilluplássinu fylltu, allmargir held ég sé óhætt að fullyrða, sentimetrar af tímaritum; þessum Lífum, öllum. Eflaust ætluð mömmunum, ég blaðaði stundum í þeim. Úr þessum blöðum er mér sérstaklega, ja eða eingöngu, minnisstæð grein sem ég las eitt sinn í einu þeirra, og sem, eftir á að hyggja, gæti reyndar allteins hafa verið science-fiction-smásaga eða allegórísk ádeila á skandinavísku velferðarstefnuna. Í textanum var talað um Tetra Pak; sænskt fyrirtæki, einkum þekkt fyrir framleiðslu á fernum sem t.d. íslenskri mjólk, gerilsneyddri og fitusprengdri, er tappað á. Vildi höfundur gera lýðnum ljósan þann stórskaða er framtíð mannkyns hlyti af að bíða, héldist uppgangur Tetra Pak-afurðanna óáreittur. Þannig væri mál með vexti, að plastmólikúl (en innra byrði Tetra Pak-fernanna er einmitt rækilega plasthúðað) byggju yfir þeim eiginleika, kæmust þau í snertingu við mennskan organisma, að líkja eftir estrógeni. Þessi undirförula innrás í vestrænan hversdag, blekkjandi líkama beggja kynja til að halda sig fyllta auknu magni kvenhormóna, myndi áðuren langt um liði valda ófrjósemi í yfirgnæfandi meirihluta karla, ef ekki hverjum einasta.
Að tímanum loknum fór ég heim, opnaði ísskápinn og upplýsti móður mína um hvílíkt svimandi magn kyngerfðra plastsameinda, hversu gífurlega aðför að komandi kynslóðum við hýstum í hillum hans. Hún deildi ekki áhyggjum mínum og áfram var fjölskyldunni byrlað plasthormón á daglegum basis.
Ég hef ekki heyrt þessa hroðalegu samsæriskenningu/tilgangslausa hræðsluáróður, hvorki fyrr né síðar en þetta eina skipti. Man heldur ekki hvaða rannsóknir textahöfundur þóttist hafa málinu til stuðnings þótt eitthvað hafi það líklegast verið. En það hefur setið í mér; þessi hermilíking einhvers eftir öðru. Að innra með okkur vinni óséð öfl að blekkingum, misskynjunum.
Mikilvægur eiginleiki mannlegs eðlis, sem og almennrar anatómískrar virkni, er nefnilega móttækileiki. Eiginleiki sem auðvitað er mismikill í ýmsar áttir á mismunandi sviðum í mismunandi einstaklingum, en sameiginlegur þó. Mætti í einfaldaðri mynd skipta þessu gróflega í jákvæðni/neikvæðni. Ég er jákvætt móttækileg fyrir tekíla en neikvætt fyrir vodka, jákvætt fyrir Simpsons en neikvætt fyrir Seinfeld, jákvætt fyrir hugvísindum en neikvætt fyrir stærðfræði. Á meðan neikvæður móttækileiki lýsir sér einfaldlega í and- og/eða líkamlegri höfnun hefur sá jákvæði uppá stærri skala að bjóða, allt frá því að finnast gott að setja hunang útí kaffið sitt til þess að verða yfir sig ástfanginn, þótt jafnvel jákvæðustu tilfinningum megi vissulega ofbjóða og þær drepa með of miklu hunangi.
Mikilvægur eiginleiki móttækikerfisins er minni. Það tekur við, það geymir og síðast en ekki síst: það hermir.
Í desember fór ég til Helgu, við fórum í bíó. Sáum Ljónina, nornið og skápinn. Báðar lásum við Narníubækurnar í kuðl í æsku, og þættirnir á rúv, ég elskaði þá! Ég get eiginlega ekki lýst því betur en svo að milli kannski 6 og 8 ára aldurs hafi ég lifað meira í þeim heimi en mínum eigin, eða, gert hann minn eigin. (Það eina sem e.t.v. jafnast á við það eru eftirköst þess að hafa séð kvikmyndagerð Nornanna eftir Roald Dahl fimm ára gömul, en það er löng, traumatísk og önnur saga.)
Skemmst er frá því að segja að við Helga urðum sex ára aftur þessa tvo tíma í akureyrskum bíósal, ég man vart eftir því að hafa orðið fyrir jafnsterkum áhrifum af bíómynd (Dancer in the Dark er ofan samanburðar). Okkur fannst hún úbba, geðveikt, æðisleg, vorum sáttar.
Um það bil vikunni síðar fór ég með Obbu og Gulla í Palads-bíóið í Kaupmannahöfn. Þau höfðu ekki séð Narníu og ég var til í að sjá hana aftur, svo við sáum hana. Og þvílík endemis vonbrigði, þetta annað skipti; þegar nostalgíu-flæðið var liðið hjá reyndist lítið eftir annað en slæmur leikur og yfirgengileg, innistæðulítil væmni. Hélt mér varla vakandi.
En tilfinningin situr í mér, frá fyrra skiptinu; get ekki lýst henni. Hún hverfur, reyni ég að þýða hana til frásagnar. Get aðeins nefnt aðra, sambærilega: tilfinninguna sem greip mig þegar ég heyrði lagið Sara eftir Bob Dylan í fyrsta skipti. Munurinn er sá, að ég finn aftur fyrir því sama í hvert einasta skipti sem ég hlusta á það og það er alltaf jafn ekta; munurinn er sá, að þá skynja ég ómengaða tilfinninguna sem listamaðurinn lagði í sköpun verksins í stað upprifjunar á tilfinningalegri geymd fyrri upplifunar. Það er himinn og haf þessa á milli, þótt svo geti sýnst sem um eitt sé að ræða. Fyrr eða síðar veldur misskynjunin óhjákvæmilega vonbrigðum, stundum meinlausum en stundum ekki; stundum verða vonbrigðin ekki fyrren í kjölfar tilfinninga og samskipta sem hljómuðu rétt en reyndust fölsk, geld, ófrjó, frá annarri hlið eða báðum, sem kemur í sama stað niður. Það er leiðinlegt, en sennilega óhjákvæmilegt, jafnvel nauðsynlegt; til að bera kennsl á eftirlíkingu þarf að þekkja fyrirmyndina, en hver kann raunverulega að meta hið raunverulega fyrren hann brennir sig á eftirlíkingu þess? |
Erla Elíasdóttir @ 7:22 ip.  |
|
|