lauantaina, helmikuuta 11, 2006
Glugginn er gruggugt gull
Ég hef ekki kynnt mér pólitíkina vestur á Melum nægilega vel til að geta myndað skýra afstöðu með eða á móti flokkum en af tilviljunarkenndum impressjónum að dæma virðist mér einn helsti aflgjafi gangverksins vera diss í garð andstæðingsins fremur en vinna í sínum eigin. Kannski er það rangt, eða kannski það sé einmitt þannig sem pólitík á að fúnkera í praxís, ég veit það ekki.



Gærdagurinn var fallegur. Ég gekk heim úr bænum með hjólhræið mitt við hönd, himinninn glansaði allsstaðar og var allsstaðar glansandi og loftið lyktaði af þiðnandi vori. Gekk yfir brúna yfir frosið síkið; yfirborðið stráð tímaskekkjandi haustlaufum og confettileifum og hálfum kampavínsflöskum, frosnum flöskuskeytum. Sá baksvip; skó buxur úlpu einsog Albertos, hár stutt og bleikt einsog beitt húbbabúbba. Mætti skömmu seinna Alberto, ekki með bleiku hári heldur Fabrizio.



- - -



Svo margir tónleikar, svo lítið margt annað. Deathcab for cutie spila á Vega í kvöld, bráðum Simple Minds sem ég ætlaði ó svo mikið að sjá en uppselt. Spurning um að reyna að ná Cardigans, Lisu Ekdahl, Belle and Sebastian. Einhverju. Var annars á Vega í gærkvöldi, þar sem sörvævel of the eitthvað sem ég er ekki fór fram á dansgólfinu og allir sem reyndu við alla reyndu við mig. Felix da Housecat skífaði glæsilega, fullt fullt fullt af fólki og nokkur af mínum uppáhalds; gott kvöld.



- - -



Hér verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér ástandinu; fjölmiðlar hafa lítið pláss fyrir annað og ólgan í samfélaginu áþreifanleg og lyktar af reiði sem getur af sér meiri útí hið óendanlega og byltist niður endaleysu þverhnípis á ógnvænlegum hraða.

Ég nenni ekki að tjá mig um pólitík þessa máls umfram það að mér finnst ríkisstjórnin hafa gert illt nógu mikið verra til að eiga að segja af sér. Fogh virðist ekkert hafa fram að færa annað en að staglast á því að við séum í alvörunni svo góð við innflytjendur í Danmörku (sem hvað hans partí varðar er argasta bull), og þykjast vera fórnardýr á altari ritskoðunar, sem er fáránlegt að ætla að sé nálægt kjarna málsins. Flokksystir Foghs, Louise Frevert, lét hafa það eftir sér í fyrra að múslimar væru "krabbamein í dönsku samfélagi", hentugt til upprifjunar núna ekki satt.



Viðbrögð heimsins eru vissulega öfgakennd útyfir öll mörk og beinast að absúrd aðilum (norskum sendiráðum, þýskum hermönnum) en að mínu viti eru staðreyndir málsins eitthvað í líkingu við þessar:



* Það er enginn sjálfsagður réttur eða forsenda persónufrelsis að lítilsvirða trú og menningu annarra, sama hver á í hlut. Siðmenning byggir á virðingu.

* Fyrst ríkisstjórnin þykist tala máli þjóðarinnar (burtséð frá því að myndirnar birtust á ábyrgð og með vitund og samþykki örfárra manna) þá er það minnsta sem þau geta gert að gera eins gott úr þessu og hægt er, ekki reyna að fara í rökræðukeppni við menn sem leggja gull til höfuðs öðrum mönnum heldur bjarga því sem bjargað verður.



Æh pólitík. Allir tala um hana, en hversu margir ætli skilji hana og ætli þeir séu fleiri eða færri en þeir sem praktísera hana? hvers virði er hún þegar öllu er á botninn hvolft (fáránlegt ekki satt... síðan hvenær snýr botn annað en upp við hvolfun)?



a) pólitík er mikilvægari en kynlíf

b) kynlíf er mikilvægara en pólitík

c) kynlíf er pólitík



Niðurstaða dagsins; aukum ástundun pólitíkur til samræmis við umtal, og umtal um kynlíf til samræmis við ástundun.



Emmháingar dagsins, og lengur; Katrín og Júlía. Ástartakk fyrir mig.
Erla Elíasdóttir @ 1:59 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER