maanantaina, tammikuuta 09, 2006
Meðan ég man...

...þá sá ég svo kósí tónleika um daginn. Broken Social Scene spilaði í Loppen, Kristjaníu þann sjötta desember eftir upphitun annars kanadísks bands, The Most Serene Republic, sem ég hafði ekki heyrt getið fyrr, kannast einhver við? Það var kanadíski Moskvufélagi okkar Hafdísar, hún Lise, sem vakti athygli okkar á atburðinum og við fórum þrjár plús Gérard. Sveitirnar eiga auk þjóðernis það sameiginlegt að vera óvenju fjölmennar, sem á sinn þátt í því hvað þær eru einkar hressar á sviði og skemmtilegar áhorfs. Ég fílaði upphitunarsveitina eiginlega betur, hún ku vera velþekkt heima fyrir og Lise var t.a.m. mun spenntari fyrir henni en BSS. Aðalsöngvari TMSR er aukinheldur alhliða tvífari Sveinbjarnar Thorarensen, ekki slæmt það. (Í kjölfar þeirrar uppgötvunar komumst við Hafdís í mikinn nostalgíuham og tókum til við að spotta lúkkalæk hinna ýmsustu vina og vandamanna. Uppskárum m.a. fullkomna eftirmynd baksvips Orra Tómassonar, auk þess sem eitthvað við Lise minnir ansi mikið á Áu. Burtséð frá því er Lise tvífari gellunnar í Crossing Jordan.)

Hinn kanadíski Sveinbjörn var, einsog búast mátti við, alveg úbba hress og skemmtilegur og talaði mikið við salinn milli laga. Kvaðst hann fíla Kaupmannahöfn vel og Kristjaníu ekki síður en vildi gjarnan vera fróðari um land og þjóð, hvað var það aftur sem Danir höfðu fundið upp... kjarnorka, eða? þeir bandsmeðlimir höfðu víst rætt þetta fram og aftur á hótelherbergi sínu en sameinuð mannkynssöguþekking þeirra hafði því miður ekki hrokkið til úrskurðar svo hann bað salinn nú hjálpar... já hann talaði semsé fullmikið og eitthvað fóru svör við þessu vandamáli ofan garðs og neðan.

Áhugi hans á danskri mennningu var greinilegur; hann þakkaði áhorfendum ekki á ensku eftir hvert lag heldur á dönsku, en það vakti athygli okkar að framburður takksins hans var alls ekki danskur heldur fullkomlega íslenskur. Takk, sagði hann, takk... how do you spell that, by the way? T-A-K-K? Varð niðurstaða nefndarinnar sú að kauði ætti vafalaust ættir að rekja til samfélagsins vestur-íslenska.



Talandi um danska menningu, þrátt fyrir hvað reynsla mín af henni hafi verið í algjöru lágmarki ætla ég að varpa fram þeirri fullyrðingu að ALLIR danskir strákar heiti Kasper. Allir. Eða Martin. Eða í mesta lagi Casper með C, eða hugsanlega Mads. Allavega, engin gífurleg fjölbreytni. En strákar í Danmörku, annað en danskir, þeir heita Matthías: ég þekki tvo þýska Matthiasa og einn ítalskan Mattia, að ógleymdum Matthíasi hinum íslensk-kínverska.
Erla Elíasdóttir @ 10:22 ap.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER