perjantaina, joulukuuta 23, 2005 |
|
Gleðileg jól sömuleiðis brosti ég falskt, púðursykursætt og toppað þeyttum rjóma í nafni frænda vorra Íra. Ófyrirséð langar yfirsetur í vaktarlok kalla á ýmis tímadráp. Eittsinn, man ég, sá einhver sig knúinn til kvarts yfir vonsku kaffisins okkar og vildi meina að Íslendingar hefðu jú löngum verið þekktir fyrir "gott kaffi". Hvaðan sem hann þóttist hafa það þá er kaffið reyndar alls ekki vont, sumir telja það bara innifalið í lúsartaxta þjónustufólks að lepja uppeftir þá geðvonskuna og skítinn. En kaffið; ekki best, en þó gott, sem lengi getur batnað.
Nú hef ég verið hér í viku af tveimur og hef það ágætt þrátt fyrir allsleysi og tímaleysi, fyrrnefnt sökum seinleika við brottför og þarafleiðandi ótrúlega heimskulegs farangursvals, hitt vegna meintra jóla á næstu grösum sem breyta því ekki að mér finnst eins geta verið október. Á miðvikudaginn var ég jafnvel vænd um "þunglyndi" sökum þessa skorts á jólagleði, vænlegt efni í tilgangslausa umræðu sem áðuren til kom var drekkt í jólaglöggi. Ef þunglyndi á að heita andstætt jólum væri restin af árinu frekar... þung? ég þjáist alltént ekki af ógleði þótt ég syngi hvorki jólalög né baki piparkökur. Kannski andinn grípi mig í mars, sjáum til. Þangað til borða ég hvítlauk og karíóka Eurythmics og gleði er sannarlega ekki ábótavant við þá iðju.
Til hamingju með kólasveininn, étiði nú yfir ykkur og leitið hamingjunnar innan umbúðapappírs, ég læt mitt ekki eftir liggja.
p.s. Ætlann væri blárri hefði pepsi orðið á undan? |
Erla Elíasdóttir @ 1:58 ip.  |
|
|