lauantaina, joulukuuta 31, 2005 |
Ber er hver að baki nema sér móður eigi. |
Missti af flugfari sem fullkomlega þvert á allar líkur, hávísindalega reiknaðar útfrá fyrri reynslu, virtist hafa tekist á loft á tilsettum tíma. (Raunin var enda að sjálfsögðu önnur, eða fjögurra stunda seinkun, en einhverra hluta vegna kaus símafulltrúi fyrirtækisins að liggja á þeim upplýsingum þartil um seinan var orðið.) Muniði Hróarskeldu 2004 þegar veðrið var úbba ógeðs viðbjóðs en enginn virtist hið minnsta búinn undir slíkt því veðrið var jú svo afspyrnugott fyrstu helgi júlímánaðar sumarsins áður?, svo einfaldlega háttað virtist rökleiðslu þeirri sem réði hugum viðstaddra þartil hún drukknaði og hvarf í drullu ásamt Mikkamúspeysunni minni og fleiru. Ég gerði mér grein fyrir villunni á sínum tíma en fyrir tveimur vikum var líka föstudagur og þá átti ég líka pantað far með flugvél og hún flaug (d.v.s. áætluninni samkvæmt) rétt uppúr hádegi og ég gerði, ósköp einfaldlega, ráð fyrir endurtekningu á því einfalda ferli. My logic demanded it, a la Vúlkans. Fór því uppí eldhús um klukkan sexþrjátíu í morgun og sat í mestu makindum myljandi rúgbrauð yfir tölvuna mína þegar mér datt í hug, sona til málamynda, að tjekka á nákvæmri tímasetningu yfirvofandi flugtaks í tölvupóstinum hvers útprentun ég hafði aldrei komið í verk. Sjöþrjátíu sagði skjárinn, sexþrjátíuogfimm sagði eldhúsklukkan, bölv sagði Erla. Ég bölvaði, hét eigin lífi róttækri endurskoðun og -skipulagningu allavega fimm sinnum á meðan ég bölvaði eigin leti og ómennsku og vaxandi þynnku og í nýtilkomnu ljósi aðstæðna einkumogsérílagi eigin skorti á nothæfum gjaldmiðlum hins kapítalíska hagkerfis. Vakti mömmu, við bölvuðum saman, mamma hringdi, var sagt að ekki yrði um seinkun að ræða, ég pakkaði, mamma fór, reddaði mér sæti í næsta flugi, kom aftur, gaf mér að borða, kom mér niðrá umferðarmiðstöð og uppí rútu, gaf mér knús og pening og mandarínur og rúgbrauð. Takk Takk Takk.
Gærdagurinn er öllu betri í minningunni en gærdagur morgundagsins er líklegur til að verða. Strax í byrjun tókst honum að lengjast um helming vegna bólusetningar (og þetta verður ekki rætt hér Valgerður) sem ég varð fyrir klukkan hálftólf á heilsugæslustöð miðbæjar samkvæmt tímapöntun hverrar annarrar en minnar elskulegu móður. Einhvernveginn leið svo þessi óvenjulangi og bjarti dagur í félagsskap ýmist einungis sjálfrar mín, eða mín auk til dæmis Hafdísar og/eða Helga og Jóa og Gvendar og einhversstaðar þarámilli fór ég út að borða með mömmu og í afmæli til Berglindar og knúsaði Aldísi, alltsaman einkar kósí, já og talandi um kós þá hitti ég Guðjón allsendis óvart og óvænt og var það kósí, enda Guðjón með kósíari mönnum. Allt var sumsé með kósaðara móti í gær, greinilega karmalega óverðskuldað mjög, með hliðsjón af setu minni hér á þessu augnabliki ósofinni og úttaugaðri í flugstöðinni Eiríkssonar með fimmsinnum of mikinn handfarangur, óhreint hár, enga bók í þó öllum þessum handfarangri og nánast batteríslausa tölvu og bíðandi eftir flyvemaskine sem samkvæmt upphaflegri áætlun hefði hafist á loft fyrir tuttugu mínútum síðan en samkvæmt áætlun augnabliksins seinkar um hálfa þriðju klukkustund, við hliðiná afar vondri lykt og hlustandi gegn vilja mínum, því já það berst gegnum heyrnartólin, á óþægilega persónulegt rifrildi ókunnugs manns við gsmsímann sinn. Eða einhvers sem hann rændi, hvað veit ég? ekkert. Nema hversu lítið það borgar sig að gera ráð fyrir hlutum.
(að öllu yfirstöðnu og mér heimkominni skal því viðbætt að mínúturnar tuttuguðu fimmsinnumuðust og það magn fimmsinnumaðist síðan aftur, sem gerir svo margar sem fimm klukkustundir. og já ég vorkenndi sjálfri mér nokkuð mikið. þið þurfið þess samt ekkert. enda allt komið í höfn í heilu lagi. góða nótt.) |
Erla Elíasdóttir @ 1:47 ap.  |
|
|