maanantaina, marraskuuta 28, 2005 |
|
Kalt og dimmt og bilaður ofninn í herberginu mínu, sveiattan. Fann samt gleymdar súkkulaðibirgðir frá Moskvu, loftbólusúkkulaði í bláu og gylltu og rauðu bréfi og mynd af prófíl af styttu af manni á hestbaki á kletti, alveg einsog þeim í Lion King. Nema snæviþöktum.
Nóttinni átti að verja í ritgerðarvinnslu, sem fór svo fyrir lítið sökum helvískra túrverkja sem kvöldu mig og píndu þar til ég þráði heitast að binda enda á eigin þjáningar með brotnu bjórflöskunni sem ég uppgötvaði í innviðum The Nightmare Before Christmastöskunnar minnar á laugardags "morguninn" og stendur nú á náttborðinu. Annars sá ég Mugison á Vega á föstudagskvöldið, það var súper fantastisch. Þó var afar undarlegt og á köflum nánast óþægilegt að vera þarna staddur innanum sirka 98% íslenskt ádíens, ekki svo mikið það að allir hafi talað íslensku allt í kring heldur einnig hvað allir litu íslenskt út.
Það er, varla skrítið, en merkilegt, hvað Íslendingar þekkja hver annan á útlitinu. Ég lendi iðulega í Íslendingum (að sjálfsögðu undantekningarlaust á djamminu) sem koma upp að mér og segjast sjá það á augabrúnunum mínum eða ég veit ekki hverju (auðvitað hef ég verið sá Íslendingur líka) og Danir, líka. Um daginn vorum við á kebabstað á Nørrebrogade, ma donna Chiara og ég, þar voru fyrir Kani og Dani í samræðum á ensku um kærustu Kanans, sem hafði nýverið yfirgefið hann og var hann að lýsa starfi hennar sem "computer linguist" fyrir hinum. Það fannst mér hljóma svo áhugavert og framandi að ég fór að skipta mér af samræðunum, sem leiddi til þess að Daninn giskaði á að ég væri Íslendingur, af enskuhreimnum mínum. Einsog ég sagði honum líka var það vel af sér giskað, enda halda flestir Danir mann Svía af hreimnum að dæma. Kaninn nefndi að sig hefði alltaf langað til Íslands, en þó varla á þessum árstíma, í kulda og skammdegi, en ég benti honum á að skammdegið væri þó eitthvað upplýst af norðurljósum, sem væru vel þess virði að kíkja á. Hann sagði þá, ósköp matter-of-factlega og einsog ekkert væri sjálfsagðara á milli munnbita af subbulegum sósulöðrandi kebab: "Oh yes... but you see, I don't smoke weed... so I don't suppose I would like them so much."
Undarleg lógík, eða bara ég? |
Erla Elíasdóttir @ 10:21 ip.  |
|
|