sunnuntai, marraskuuta 06, 2005 |
|
Þögull dagur. Úti syngur haustið prelúdíu vetrarins, alltaf nær en ég hélt hann vera, og ekki bara afþví tíminn hafi haldið áfram að líða.
Fór í frábært innflutningspartí í frábærri íbúð á föstudagskvöldið. Innflytjendur voru tveir af ítölsku vinum mínum, þeir Fabrizio og Alberto, og þrjú önnur til viðbótar sem ég hafði engin kynni haft af áður og kynntist svosem ekkert að ráði þetta kvöld, nema ég veit þau vera Grikki plús stelsjúkan tannlæknanema og afar viðkunnanleg að auki.
Partíið byrjaði í fyrra fallinu, eða klukkan 15:00. Ég mætti um fimmleytið, og hið þar af leiðandi tólf tíma langa partíástand, ásamt því að ég hafði víst lofað að passa Matta frá klukkan 8 í gærmorgun og framá kvöld, hafði þær afleiðingar að ég svaf allt gærkvöldið og fram að hádegi í dag. Það var gott.
Í dag hef ég velt fyrir mér hugsanlegri útkomu, ætti ég að finna dvöl minni hér sem ítarlegasta yfirskrift. "Why not?" virtist mér sniðugt í fyrstu en það virkar samt ekki fyllilega án tilheyrandi áherslna og handahreyfinga og er þarmeð ónothæft. "I don't understand nothing!" reyndist heldur ekki sniðugt, af sömu ástæðu... en nú hef ég fundið hana, yfirskrift tilveru okkar hér, hina eilífu spurningu alþjóðlegra stúdenta í Kaupmannahöfn, þá sem aldrei verður endanlega svarað en þó aldrei of oft spurt og það á undan "What is to be done?" og "Who is to blame?". Spurningin er að sjálfsögðu: "Where is my bike?" "Où est mon veló?" "Dónde está mi bicicleta?"
p.s. Að sjálfsögðu væri hin augljósa og alltumvefjandi yfirskrift engin önnur en "Lost in translation"... en til eru bæði sjálfsævisaga og kvikmynd með því nafni nú þegar, og kannski vill maður vera pínulítið sérstakur, sé hægt að tala um slíkt í samhengi 400 einstaklinga. |
Erla Elíasdóttir @ 4:03 ip.  |
|
|