torstaina, lokakuuta 20, 2005
Minni...
...fyrirferðarmikið viðfangsefni í nútímasálfræði enda nóg við það að athuga; svo skemmtilega víðfeðmt og óljóst og ófyrirsjáanlegt að ekki sé minnst á afar einstaklingsbundið fyrirbæri, þá ekki aðeins á gott-slæmt skalanum heldur er ótrúlega einstaklingsbundið hvernig minnismaskínur mannanna virka.

Þið sem þekkið mig vitið kannski að ég hef mjög gott minni, t.d. á nöfn, andlit, lagatexta og dagsetningar. (Mig rámar þó í að á sumum sviðum sé minni mínu nokkuð ábótavant, en ég kem því ómögulega fyrir mig í augnablikinu hvar þau svið liggja.)
Nú er ég, þrátt fyrir að hafa aldrei komið inní annan haus en minn eigin, meðvituð um það að hugir mannanna eru mögulega jafn ólíkir og margir, en samt þykir mér stórmerkilegt að fá staðfestingu á því að önnur mannvera búi yfir heila með tengingum alveg gerólíkum mínum, sem leiða þó kannski ekki að svo ólíkum niðurstöðum.
Eftirfarandi brot af bloggsíðu góðkunningja míns og góðbloggara Stígs Helgasonar er dæmi um slíka staðfestingu:

Ég hef ótrúlegt minni á nöfn og andlit, aðallega í samhengi hvort við annað. Ef ég ákveð að muna fullt nafn einhvers þá líður það mér seint úr minni. Andlitin man ég sem svipi, ef einhver skilur hvert ég er að fara. Ég man engin smáatriði úr andlitum fólks, bara heildarsvipinn. Að sjálfum mér og foreldrum mínum undanskildum þá get ég aðspurður ekki sagt til um augnlit einnar einustu manneskju í heiminum, ekki einu sinni systra minna, svona sem dæmi. Ég tek ekki eftir svoleiðis hlutum. Ég kenni m.a. þessu um takmarkaða teiknihæfileika mína. Nöfnin festi ég í minninu að mestu eftir hljómfallinu, þannig man ég hin ýmsu nöfn sem ég hef heyrt án þess að vita hver ber þau, kannski vegna þess að ég hef aldrei séð andlitið sem fylgir.

(Stígur Helgason, 29. september 2005)

Já, þetta þykir mér stórmerkilegt. Ég hef líka ótrúlegt minni á nöfn og andlit, en andlit sem svipir? heildarsvipir? ég skil ekki neitt hvert hann er að fara. Ég man smáatriði í andlitum, ég gæti nefnt augnliti allra sem voru með mér í fjórða bekk. Það dugir varla til að réttlæta óhæfni í teikningu, en ég hef hana nú samt. Svo er það þetta með hljómfallið, stórmerkilegt einnig, ég hef reyndar ágætis tóneyra en það kemur nafnaminni ekkert við. Ég man nöfn á sama hátt og ég man lagatexta og talnarunur og allt annað sem hægt er að skrifa niður og lesa, ætli það flokkist ekki undir sjónminni; ég sé það. Einsog þegar ég tala, eða hlusta á aðra, þá birtast orðin einsog líðandi yfir skjá þarna aftast í huganum, líktog skrifuð með prentstöfum. Það er sennilega af þessari ástæðu sem mér er, einsog ég hef komist að hér í umhverfi útlenskanna, eiginlega ómögulegt að muna nöfn ef ég veit ekki hvernig þau eru stafsett.
Erla Elíasdóttir @ 5:42 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER