keskiviikkona, syyskuuta 21, 2005 |
|
hmmmmm, hmm, hmm, hmmmmmmmmmm, hmmmmm, hmm, hmm, hmmmmmmmmmm, dumm dumm - - dumm dumm - - On the 21st day of the month of September, in an early year of a decade not too long before our own, the human race suddenly encountered a deadly threat to its very existence. And this terrifying enemy surfaced, as such enemies often do, in the seemingly most innocent and unlikely of places... Original Broadway Cast Little Shop of Horrors-soundtrackið mitt varð eftir heima. Kemur ekki að sök, hef hlustað á það oftar en nógu oft til að kunna utanað. Ég man eitt sumar, hjá afa Ágústi í Mávahlíðinni (jarðarber eggjasnúningssstóll kókglas píputóbakslykt vatnslitir tetris grænt eldhús og stór stór spegill) og þá kom hún í sjónvarpinu, Little Shop of Horrors með Rick Moranis og Steve Martin. (Ég hef ekki séð hana síðan en er jafn heilluð og þá.) Þetta sama sumar, ég ætla ekki meira en svosem viku síðar, ferðaðist ég norður til Akureyrar ásamt mömmu, Helga, Tótu og Gunnari. Gunnar var með LSOH sándtrakkið á kassettu og við sungum með langleiðina norður. Þegar á leiðarenda var komið fjarlægðum við flugur úr grindinni framaná bílnum og skoðuðum í smásjánni hans Gunnars. Ég var átta ára og hann tíu. Nú er ég í Kaupmannahöfn og hann í Amsterdam og enn tengi ég hann við mannætuplöntur, við dauðar flugur, á svo góðan hátt.
Fluga flaug upp í mig um hádegisbilið, eða kannski hjólaði ég utanum hana, allavega voru lyktir þær að ég upplifði mig sem þolanda atviksins, með flugubragð í munni í allan dag, eftir að hafa spýtt fluguhræinu fersku út og tilfinningunni á nokkurra mínútna fresti síðan. Flugubragðstilfinning er svipuð blekbragðstilfinningu að því leyti að bragðið er ekkert, aðeins tilfinningin. Í stað munnbragðs hversdagsins kemur bragð af engu plús tilfinning fyrir ógeðisbragði af einhverju tagi. Bragð í mínus, grátt á svart.
Tungumál eru mikilvæg og sérstaklega hér, enskan auðvitað öllum sameiginleg og danskan mín hættir sér sífellt lengra út í dagsljósið. Hef mest talað við Ítali, aldrei lært ítölsku en spænska, latína og jafnvel franska hrökkva furðulangt í bland við enskuna. Um daginn var ég stödd á götu ásamt ítölskum, breskum og finnskri sem töluðu saman á þýsku, en í henni kann ég sama og ekkert.
Fékk síðan sönnun þess í dag hversu ruglaðar málstöðvarnar eru orðnar; vingjarnleg kona, vopnuð korti, spurði mig til vegar á ensku. Ég leiðbeindi eftir bestu getu en ráðlagði henni þó að spyrja Dana til öryggis, því sjálf væri ég ekki dönsk. Hvort hún fann sína leið veit ég ekkert um, en er nokkuð viss um að hún hafi leitað ráða annarsstaðar, þar sem ég fattaði eftir á að leiðbeiningarnar mínar höfðu verið á dönsku.
Hlusta á The Clash, Combat Rock. Mér þykir svo vænt um The Clash. Mér þykir líka afskaplega vænt um The Smiths. Hitt þykir mér ekki jafn vænt um, sem ég varð vitni að í dönsku sjónvarpi fyrr í dag, að upphafslag nornasápunnar Charmed er eitthvert aumt kover af How Soon Is Now? Menn selja sig ódýrt þessa síðustu, verstu.

Annars er Matti sex mánaða í dag. Tíminn flýgur uppí fortíðina, eða fortíðin utanum tímann? Hann er hársbreidd frá skriði; engist um á maganum (hann getur nefnilega velt sér af baki yfirá maga, en ekki öfugt), spyrnir í gólfið og lyftir sér upp einsog fyrir armbeygju en lætur sig falla aftur og emjar af frústrasjón. Og aftur, aftur, aftur.
Ég hef mest (þó ekki mikið) skrifað til sjálfrar mín undanfarið, er jú svo sjálfhverf einsog maðurinn sagði. Hef lítið skrifað heim enn, veit varla hvernig eða hvert skyldi hefja persónulegri samskipti en þessi, frá einu lífi til annars. En ég lofa að svara. |
Erla Elíasdóttir @ 5:25 ip.  |
|
|