maanantaina, elokuuta 08, 2005 |
Ég er ekki með sjálfum mér í dag, |
hugsaði hann. Hjartað slær óreglulega. Lífið fer illa með lifandi fólk. Ekkert okkar er með sjálfu sér. Ekkert okkar er svona.
- - -
Söngvar Satans, eftir Salman Rushdie. Eitt af því fjölmarga sem mér þykir frábært við skrif hans er hvernig hann notar tölur, því ég elska tölur og hef alltaf gert (sem á n.b. ekkert skylt við ást á stærðfræði). Einhverntímann seint laugardagskvöldsins, eða snemma morgunsins eftir, sat ég með Jóni tvíbura og Nínu Mexiforniu og við vorum að tala um... ætli það hafi ekki byrjað á umræðum um dýr, sem leiddi að stjörnumerkjum, sem leiddi að afmælisdögum, sem leiddi að kennitölum, sem leiddi að því að mér datt í hug, og sagði, að ef Jón hefði fæðst ári seinna en hann gerði hefðu kennitölur okkar haft sömu þversummur. Að þessum orðum rétt sloppnum útum varir mínar rákust augun í bók á stofuborðinu á milli okkar; bar hún nafnið Numerology. Eftir að hafa flett nokkrum blaðsíðum þar sem því er lýst hvernig lesa má sannleik lífsins útúr tölum fundnum útúr þversummum nafna og fæðingardaga, og eftir margvíslega útreikninga sem staðfestu ýmislegt sem mig hefur lengi ef ekki alltaf grunað, hef ég komist að því að ég hef þörf fyrir mánasteina, af nokkurnveginn sömu ástæðu og ég hef þörf fyrir Hólmfríði, og mun mögulega endurhugsa árið 2002 með tilliti til nýtilkominna þátta.
|
Erla Elíasdóttir @ 1:43 ip.  |
|
|