sunnuntai, elokuuta 21, 2005 |
|
Í Esbjerg, í skugga, sólin skín. Dísa hélt til Amsterdam í morgun, hin til Legolands en ég kaus fremur að eyða þessum kyrrláta sunnudegi í bænum. Esbjerg telst víst til borga. Ég hef ekki aflað mér vitneskju um tölfræði staðarins en áætla hana áþekkari Reykjavíkur en Akureyrar. Ég veit mig stadda á vesturströnd Jótlands, þriggja tíma lestarsetu frá höfuðstaðnum og nokkuð styttra frá landamærum Þýskalands.
Hingað komum við frá Kaupmannahöfn fyrir viku og þangað sný ég aftur eftir aðra. Tvær vikur sem ferðalangur, í bæ sem þessum, eru langur tími og ég leyfi mér að efast um að nokkur utanaðkomandi dvelji hér svo lengi án ærinnar ástæðu. Ég þekki ekki sálu meðal íbúanna og hef reyndar, að þjónustustarfendum frátöldum, ekki skipst á dönsku orði við nokkurn mann. Íslensku og ensku hef ég talað; við Íslendinga, Finna, Breta, Frakka og Ísraela.
 Peningalykt svífur yfir bænum og mér var sagt að hér væri veðurfarið í ætt við hið íslenska; óútreiknanlegt, síbreytilegt, blautt. Sólin hefur þó skinið nánast hvern dag sem af er og ég væri óneitanlega til í smá skúr núna, jafnvel meiri en smá. Sól er góð í hófi, miklu hófi, enda á mín problematíska húð það til að bæði sólbrenna og sýna ofnæmisviðbrögð við sólvörn, og það hvað ofan í annað.
Hér vantar ýmislegt í samanburði við Kaupmannahöfn. Til dæmis Seven Eleven. Matas er þó á hverju horni og Netto á einu, en Netto er reyndar frekar léleg búð, þegar ég hugsa útí það... Seven Eleven er hinsvegar sárt saknað. Í dag er sunnudagur og flestallt lokað. Ég gekk bæinn á enda í þeirri von að geta einhversstaðar verslað inneign handa danska símanúmerinu mínu, en svoleiðis fæst, eftir því sem ég kemst næst, á þremur stöðum hér: í símafyrirtækisbúðinni, sem er lokuð á sunnudögum, Tourist Information skrifstofunni, sem er lokuð á sunnudögum, og í pínulítilli búð í eigu fjölskyldu ættaðrar frá Mið-Austurlöndum. Þar virðist nánast allt fást, nánast hvenær sem er. Ég fékk allavega inneign. Á sunnudegi.
Tvö svonefnd netcafé hef ég fundið, sem reyndust önnur heimili tölvuleikjaspilandi táninga fremur en kaffihús, og opin í samræmi við eftirspurn.
Hér eru eiginlega engin kaffihús, bara veitingastaðir og krár. Rakst einusinni á þráðlaust internet, á fáránlega góðum, fáránlega ódýrum ítölskum veitingastað sem hefur því miður líka fáránlega opnunartíma. En netcaféin eru fín; tíkall fyrir klukkutíma af neti og kaffi, með ábót. Og hér er gjörsamlega frábær sundlaug.
En það er kannski bæði tímabært og við hæfi að greina frá tilgangi veru minnar hér... Síðastliðna viku hefur staðið hér yfir menningarhátíð þar sem ýmsar hliðar og kimar bæði lókal sem og utanaðkomandi menningar hafa verið matreiddar oní heima- og ferðamenn, herlegheitunum lauk svo í gærkvöldi með flugeldalýstu miðbæjarfylleríi... feels like home.
Stórt svið var sett upp á torginu og þar hafa m.a. lagt sitt af mörkum lókal bojbönd og einyrki með skemmtara að flytja Take That-smelli. Einhversstaðar inní allt þetta kemur fyrirbæri að nafni Esbjerg International Chamber Music Festival, sem stendur yfir þessa helgi og þá næstu. Þar er Brahms m.a. á dagskrá, kvintettar og sextettar og fleira, og þar spila Dísa frænka mín og Michael maðurinn hennar. Á meðan á æfingum og tónleikum stendur förum við, Clara og ég, í sund, eða á róló, eða hvað annað sem okkur dettur í hug. Clara er fjögurra ára. Hún er ljóshærð með freknur og gleraugu í blárri umgjörð. Henni finnst gaman að dansa og syngja og leika indjána og henni finnast furuhnetur, gúrkur og chocolate chip cookies góðar. Hún á íslenska mömmu og bresk-franskan pabba og hún býr í Amsterdam. Hún er með frekari krökkum sem ég hef kynnst. Ég elska hana takmarkalaust.
|
Erla Elíasdóttir @ 4:36 ip.  |
|
|