sunnuntai, elokuuta 28, 2005
Erla's psychedelic breakfast
Ljós punktur þess að vakna í þynnku: dagurinn getur vart annað en batnað eftir því sem á hann líður. Morgunmatur á svölunum var reyndar þolraun. Röntgenlík sól, hástöfumsyngjandi barn, og kaffið... það eina sem mig vantaði af öllum heimsins mögulegheitum var kaffi. Þegar ég settist til borðs beið mín bolli með kaffi og mjólk sem Dísa hafði verið svo hugulsöm að sulla saman handa mér. Nú á dagleg morgunkaffisamdrykkja okkar tveggja vikna afmæli í dag, svo ég hélt satt að segja að hún vissi hvernig ég drekk það. Kaffið. Þagði þó, kurteisinnar vegna, og píndi í mig nokkrum sopum af ósómanum sem mætti helst líkja við rammt, hlandvolgt og fljótandi smjörlíki. Ég hata kaffi með mjólk, drakk það einusinni en síðan ég fór að drekka það svart virðist einhver takmörkun hafa átt sér stað í bragðlaukunum; þeir hafna mjólkinni.

Gærkvöldið endaði í partíi á Haraldsgade þar sem saman voru komnir finnskur píanóleikari, finnskur sellóleikari, finnsk-eitthvað víóluleikari og austurrískur fiðluleikari, allir um fertugt. Og ég. Við drukkum franskt rauðvín, hérumbil tíu flöskur, tror jeg, og borðuðum lífrænt lagaðan ís og gerðum grín að því hvernig Japanir tala dönsku... eða kannski öfugt? hvernig danska tali Japani. Eða, það var allavega ógeðslega fyndið.

Í fyrramálið er það svo lestin til København, pakkaði eiginlega öllu í morgun. Við slíkar athafnir er gott að hafa það lögmál í huga að það er, alltaf, pláss fyrir eitt í viðbót.



Eitt enn: þegar ég tók heyrnartólin mín upp við komuna hingað voru þau ónýt og ég vil nota þetta tækifæri til að kenna vissum fyrrum sambýlingi/ættingja um skemmdarverkið, og einnnig lýsa yfir ánægju minni með heyrnartólin sem ég keypti í Tiger á tíu danskar og er gúmmílykt af, þau virka stórvel.
Erla Elíasdóttir @ 2:24 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER