torstaina, heinäkuuta 14, 2005 |
|
Áðan sat ég inni á kaffistofu og blaðaði enn einusinni í gegnum sama Hér og núið, þar eð ekkert annað lesefni er þar við höndina og ekki hætti ég mér í Morgunblaðsslag gamlingjanna. Snepill þessi inniheldur slúður, auglýsingar og fáeinar klausur sem með góðum vilja mætti kalla viðtöl.
Tók eftir einni klausu sem hefur ef til vill verið hugsuð sem frétt þótt deila megi um fréttnæmi efnisins, sem var lokun sjoppunnar Mats og mynda, til skamms tíma staðsettrar að Freyjugötu 27 á horni Freyjugötu og Njarðargötu. Textinn, hvers yfirskrift er „Sögufrægri sjoppu lokað“, hefst með þeim orðum að „allt hafi breyst á Skólavörðuholtinu“, nú sé þar „skarð fyrir skildi“ enda hafi sjoppan verið á horninu „eins lengi og elstu menn muna“. Þar hafi verið opið á óguðlegum tímum og „hægt að treysta því að rauðkálið og grænu baunirnar væru í hillunum ef gleymst hafði að kaupa það með steikinni“. Loks er klykkt út með þeirri dramatísku staðhæfingu að nú hafi „enn ein hverfisverslunin lagt upp laupana“.
Ekki veit ég hvað hefur rekið einhvern snápvesalinginn á svo örvæntingarfullar gúrkuveiðar sem þessi texti ber vitni, en hvað sem elstu mönnum líður man ég vel eftir sumrinu 1988. Það var sumarið sem mamma og Kristófer giftu sig og við fluttum á Freyjugötuna og Helgi bróðir minn fæddist og ég varð fjögurra ára og Kristófer gaf mér sirkuspleimó í afmælisgjöf og ég byrjaði á Grænuborg og það var verið að lækna Hallgrímskirkjuturninn svo hann var klæddur í grænar umbúðir. Ekki man ég þó eftir sjoppunni sögufrægu, enda var hún alls ekki á horninu þá heldur Freyjubúðin. Hún var í eigu Konnýjar sem var gömul og feit og með gleraugu og bjó á Njálsgötunni. Í Freyjubúðinni fékkst matur og nammi og fleira og þar voru hvítir plastpokar með rauðum stöfum. Símanúmerið, rautt á hvítu, byrjaði á einum og endaði á húsnúmerinu 27. Það eru tvennar dyr á húsnæðinu en þær sem snúa að Freyjugötunni eru ekki notaðar, heldur ekki þá, og tröppurnar voru góður tombólustaður.
Svo liðu árin og ætli það hafi ekki verið '96 eða 7 sem Gunni mætti á naglalakksrauða sportbílnum sínum með strípur og sólgleraugu í hárinu og keypti Freyjubúðina. Í kjölfar þess varð hún sjoppa fremur en búð, vídjóleiga auk þess og var endurnefnd Matur og myndir. Gunni var skemmtilegur og átti sjoppuna í nokkur ár þangað til hann seldi hana í hendur fólks sem ég þekkti aldrei deili á, og einhver frekari eigendaskipti urðu víst áður en yfir lauk. Eftir brotthvarf Gunna þótti mér sálin horfin úr sjoppunni og metnaðurinn með og lítið þar að finna umfram hvert annað bónusvídjó, svo hástemmdar lýsingar Hér og nús þykja mér kjánalegar. Hverfisverslun hefur þetta ekki verið síðan á dögum Konnýjar heldur hversdagsleg vídjósjoppa með slíku hallærisúrvali af matvörum að minnti á eyðimörk.
|
Erla Elíasdóttir @ 1:05 ip.  |
|
|
|
|
![]()
|
|
|
Meðlæti: |
- - -
|
Gestgjafar: |
 |
|