torstaina, kesäkuuta 30, 2005 |
|
Vaknaði í morgun við batteríleysispíp í símtækinu. Hefði undir öðrum kringumstæðum sofið lengur, en mér þótti pípið ekki passa allskostar við minninguna um að hafa sett símann í hleðslu í gærkvöldi...
Síminn sem ég átti á undan þessum drukknaði í jógúrtbaði í skólatöskunni minni í september 2003. Eftir það var ég símalaus um tíma og fannst það fínt en sumir létu það fara í taugarnar á sér að illa gengi að ná í mig, þeirra á meðal þáverandi kærasti minn Davíð, sem gaf mér nýjan eftir tvo mánuði. Nú virðist sem hann sé farinn að gefa sig og hafi verið svo elskulegur að velja til þess daginn í dag, daginn sem ég held til Hróarskeldu og verð þar einhvernveginn að hafa uppi á vinum sem þegar eru farnir... heppilegt. Pabbi ætlar að reyna að redda mér, það hlýtur að bjargast. Hinsvegar veit ég ekki hvað verður þegar heim kemur, ég efast raunar um að ég kaupi mér nýjan, hefði ekkert á móti því að vera án slíks í smá tíma auk þess sem ég hef meira en nóg annað, betra, að gera við peningana.
Það gæti semsagt farið svo að samskipti við mig þyrftu að fara gegnum aðra miðla á næstunni, áhugasömum er t.d. bent á heimilissímann á Baldursgötunni eða dyrabjöllu sama staðar.
|
Erla Elíasdóttir @ 9:34 ap.  |
|
|