tiistaina, kesäkuuta 28, 2005
Umferðaröryggi

Ég þurfti aðeins að skreppa í hádeginu. Rétt áðuren ég kom að horni Laugavegar og Frakkastígs, vestanað nánar til tekið, fattaði ég að rennilásinn á töskunni minni var opinn svo ég sleppti hægri hönd af stýrinu til að lagfæra þetta sem snöggvast. Á sömu stundu tók heilinn uppá því að senda vinstri hönd skilaboð um að bremsa áður en að Frakkastígnum kæmi.



Sé reiðhjól setið með aðra hönd á stýri, hönd sem kreistir bremsuna sína áðuren hinni gefst ráðrúm til að gera jafnvægislögmálinu til geðs með því að grípa um hinn enda stýrisins... þá er voðinn vís.



Ég held ég hafi sloppið ótrúlega vel, allavega miðað við annað slys, nokkuð svipað, fyrir tíu árum síðan, sem rændi mig báðum framtönnunum. Það var líka mjög heppilegt að enginn skyldi hafa orðið fyrir hjólinu eða sjálfri mér þar sem við hrundum á stéttina. Einnig lenti ég u.þ.b. hálfan metra frá einum af litlu grænu gaurunum sem standa við gangstéttarbrúnir Laugavegarins og geta eflaust verið skæðir. Að sjálfsögðu var ég ekki með hjálm á höfði og það er einkar heppilegt að hvorki vetrarnótt né sólmyrkvi hafi verið til staðar, því hjólið er vita laust við ljósgjafa, sem og bjöllu og keðjuhlíf, svo fátt eitt sé nefnt.



Vegfarendur reistu mig við og inntu eftir líðan, hver í kapp við annan. Ég sagðist vera í lagi, þakkaði veitta aðstoð og afþakkaði frekari, og haltraði nokkur skref áfram áðuren ég ákvað að hjóla áfram leið mína í Borgartúnið. Þar lagði ég inn umsókn um ökuskírteini.
Erla Elíasdóttir @ 1:23 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER