maanantaina, kesäkuuta 13, 2005 |
Einusinnivar |
Helgi bróðir minn er sautján ára í dag, Hulda Björk tvítug og Harry uppáhaldshúsvörður sjötugur, hvorki meira né minna. Ég hef óskað þeim öllum til hamingju en vil einnig skjalfesta það hér þótt sennilega muni ekkert þeirra lesa það. Svo til hamingju.
Ég man þegar ég var lítil, þá gerðist það iðulega að ég var að fara út að leika mér og mamma var mjög mömmuleg mamma og nöldraði um það að ég væri illa klædd, einsog mömmur gera stundum, ætlarðu ekki að setja á þig húfu og hún amma þín prjónaði þessa vettlinga til þess að þeir væru notaðir og svo framvegis. Ég lék samviskusamlega hlutverk mitt sem krakkalegi krakkinn mömmulegu mömmunnar og maldaði í móinn, aðallega for the sake of malding í móinn. Þá kom mamma alltaf með þessa línu, svona óþolandisemi í anda þetta grær áðuren þú giftir þig:
Jú svona, settu á þig húfu... Það er betra að vera í einni flík of mikið en einni flík of lítið!
Ég benti móður minni á rökvilluna sem hún hafði látið útúr sér:
Ef Ég + Húfa = Einni flík of mikið, og Ég - Húfa = Einni flík of lítið, er Ég þá ekki bara alveg einsog Ég á að vera? Ég hefði haldið það. Þetta fór óskaplega í taugarnar á rólyndiskonunni henni móður minni, sem á almennan mælikvarða er þó ekkert að ráði.
|
Erla Elíasdóttir @ 11:37 ap.  |
|
|