sunnuntai, toukokuuta 15, 2005 |
Svefn |
Allir sofa. Mismikið og misvel að vísu, en eitthvað samt. Ég hef aldrei átt í vandræðum með að sofa, frekar með að halda mér vakandi.
Stundum neyðist ég til að vakna að of litlum svefni loknum, yfirleitt afþví ég hef farið of seint að sofa miðað við það sem ég þarf að gera daginn eftir, og þá verð ég mjög sennilega geispandi og ógeðslega uppstökk eitthvað frameftir degi. Hinsvegar kemur líka fyrir að ég vakni af sjálfsdáðum, alveg passlega sofin (soðin?), en af einhverri leti eða ómennsku fari ég síðan aftur að sofa og vakni löngu seinna með náladofna útlimi, koddafar á kinn og einhvern þokukenndan drunga yfir allri heilastarfsemi. Það er líklega þetta sem kallast að vera svefndrukkinn. Of stór skammtur af svefni... ætti kannski að vera ólöglegt að keyra undir áhrifum svefndrunga?
Semsagt; það er vont að vakna of snemma og vont að vakna of seint.
Ég hef ekki hugmynd um hvert ég er að fara með þetta... mig rámar í einhverja rosalega pælingu um þennan svefntíma sem við a) eigum inni, því við þurftum að vakna of snemma b) skuldum, því við sváfum alltof lengi... það fylgdi ekki pælingunni hvar við eigum þennan svefn inni og hverjum við skuldum, eða hvernig það jafnist út, og skyldi þá mínustíminn og plústíminn hafa jafnt vægi? skyldi það hafa einhver djúpstæð langtímaáhrif á fólk að vera annaðhvort í yfirgnæfandi plús eða mínus, og hvorumegin ætli meðalmaðurinn sé?
Ég veit það ekki. Þó fannst mér ég vita það allt þegar ég byrjaði að hugsa um það áðan, en þá var ég reyndar mjög svefndrukkin.
|
Erla Elíasdóttir @ 3:53 ip.  |
|
|