torstaina, toukokuuta 05, 2005
Forðist kattarmyntu

Eftir blóðgjöfina um daginn vissi ég eitt sem ég hafði ekki vitað áður; blóðið mitt er í A-flokki. Þar sem ég er svo mikill sökker fyrir vítamínum og heilsutei og náttúrulækningum og svoleiðis, þá datt mér í hug þegar heim kom að grafa upp skrudduna sem móðir mín predikaði sem heilaga ritningu hér um árið og nefnist Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk. Svona í tilefni af því að... vita blóðflokkinn minn og geta því lesið eitthvað úr henni.



Ég byrjaði á að fletta yfir fyrstu 100 blaðsíðurnar og beint að kaflanum Áætlun fyrir A-blóðflokk. Byrjunin átti bara merkilega vel við mig: A-flokksmenn hafa viðkvæman meltingarveg en þolgott ónæmiskerfi, grænmeti fer vel í það en kjöt illa, sömuleiðis mjólkurvörur, búrí búrí... kaffi mjög gott, rauðvín mjög gott, ókei... forðist gosdrykki, einmitt það sem ég geri.

Svo komu endalausir listar yfir það sem er hollt, það sem er hlutlaust og það sem skal forðast í hverjum fæðuflokki: ókei, ég ætti að geta forðast maíssilkite og kattarmyntu...? Ég skoðaði ávaxtadálkinn:

Mjög hollt: Sveskjur, þurrkaðar fíkjur, boysenber.

Forðist: Appelsínur, banana, mangó, papaya, kókoshnetur, melónur. Þetta var farið að hætta að vera sniðugt.

Snúum okkur að grænmetinu.

Mjög hollt: Kaffifífill, alfalfaspírur, okra, rauðrófulauf.

Forðist: Eggaldin, paprikur í öllum litum, sætar kartöflur, sveppi, tómata og svartar ólífur. (Er til betra pítsukombó en sveppir og tómatar? já: sveppir, tómatar og svartar ólífur.)

Einnig ber mér að forðast kjúklingabaunir (sem ég ehehelska) en azuki-baunir og pinto-baunir eru hinsvegar mjög góðar...? Meðal annars forðast-matar er beikon, humar, allur skelfiskur, allur ostur nema soja/geita/fetaostur, einnig á ég alls ekki að borða cashew- eða brasilíuhnetur.
Og var ég búin að minnast á það að uppistaðan í mataræði mínu á samkvæmt þessu að vera tófú.



Já, heilbrigt og rétt mataræði amerískra vísindamanna er dýru verði keypt. Ég hef úrskurðað þessi vísindi alls engin vísindi, heldur meira svona general guidelines sem ég get farið eftir þegar mér hentar ef það lætur heilsusökkernum í mér líða betur. Svo ef ég skyldi falla í freistni og háma í mig beikon með gráðosti og worchester-sósu... þá drekk ég bara nóg af de-tox tei og eiturefnin munu flýja mig einsog rottur sökkvandi skip.
Erla Elíasdóttir @ 4:07 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER