lauantaina, huhtikuuta 30, 2005
Í nótt mig dreymdi hamingjuna - hún var hásigld einsog fugl við klettabrún...
William Heinesen, þýð. Þorgeir Þorgeirson

Ekki veit ég hvort það tengist hamingju þeirri sem lesendur hafa óskað mér, og þakkast hérmeð fyrir, en nú er ég hamingjusöm.



Hamingjan læðist að mér þegar minnst varir einsog gamall köttur sem drattast inn við sólarupprás eftir næturlangt flakk og nuddar hausnum við kálfann á mér; ég veit að honum þykir vænt um mig og að hann kemur alltaf aftur þótt hann hafi stundum öðru að sinna. Í fjarveru hans grípur mig þó stundum sá órökstuddi ótti að hann hafi e.t.v. fundið sér annað og glæsilegra heimili, fallegi hvíti kötturinn minn með botnlausu augun, annað himinblátt og hitt sægrænt.

En þetta er enginn hversdagsköttur með níu líf heldur er tilvera hans samofin minni frá upphafi okkar til sameiginlegra endaloka; hvort okkar sem fyrr gefst upp hlýtur að taka hitt með sér.



Nú sitjum við hér, kötturinn minn og ég í okkar kaffiblettóttu og óreiðukenndu tilveru. Við erum fegin að sumarið skuli loks vera komið en kvíðum þó ekki haustinu, sem mun flytja okkur af landi brott.



Nú fer ég, hafið það gott, why wait any longer for the world to begin...
Erla Elíasdóttir @ 6:31 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER