torstaina, huhtikuuta 14, 2005 |
Bojkott |
Bankamafían gerist sífellt umsvifameiri og sýnilegri í þjóðfélaginu. Nú er víst tíminn til skuldasöfnunar sem aldrei fyrr því öðruvísi tollir enginn í hinu svokallaða lífsgæðakapphlaupi. Ég veit ekki hvað þessi eftirsóttu lífsgæði miðast eiginlega við, en Íslendingar virðast taka óhófspólinn í hæðina í þeim málum einsog svo mörgum öðrum. Það er ekki verið að keppast við, heldur keppast um og tíðarandinn virðist krefjast þess að menn tapi sér í vonlausri baráttu við að toppa hver annan í neyslugeðveiki og sýndarmennsku. Takmarkið er óljóst með öllu.
Ég hata markaðsöflin. Ég hata þau og mér er sama um öll heimsins skynsamlegu rök sem færa má fyrir gagnsemi þeirra, því skynsemin greinir ekki mun góðs og ills. Lögmál markaðarins eru sálarlaus, þau drepa það sem okkur þykir vænt um og misnota hugsjónir í gróðabraski. Þau drápu pönkið, gerðu hippana að uppum og Che að lógói.
Allt sem við gerum skiptir máli. Það skiptir máli hvað við leggjum nafn okkar við og það skiptir máli fyrir hvern við vinnum og það skiptir máli í hvað við eyðum peningunum okkar, því það er með þessu sem þau stjórna okkur, en bara afþví við látum þau komast upp með það.
Við þurfum ekki að taka þátt í þessu, þurfum ekki að auðvelda þeim að græða á þrælkunarvinnu annarra bara afþví við nennum ekki að hugsa ferlið til enda. Með hverri keyptri kókdós stuðlum við að markvissum mannréttindabrotum á almenningi í þróunarríkjum, og þetta er enginn kommúnistaáróður heldur bláköld staðreynd.
Við vitum af þessum brotum en þau viðgangast samt, því það er ekki nóg að vera rosalega meðvitaður án þess að gera neitt. Til hvers að borga þúsundkall á mánuði til Amnesty International og eyða svo margfaldri þeirri upphæð í vörur fyrirtækja sem brjóta mannréttindi ítrekað og vísvitandi?
Þetta er raunveruleikinn sem við leitum að í Survivor og America's Next Top Model, íklædd fötum saumuðum af fimm ára þrælum, sötrandi kók sakbitin, en ekki af samvisku okkar heldur kaloríuskrímslinu, stærsta ógnvaldi hins vitiborna manns í dag.
|
Erla Elíasdóttir @ 5:31 ip.  |
|
|
|
|
![]()
|
|
|
Meðlæti: |
- - -
|
Gestgjafar: |
 |
|