maanantaina, maaliskuuta 28, 2005
vera

Í dag var ég í heimsókn hjá Veru. Ég hjólaði til hennar, mestalla leiðina í mótstöðu við vindinn. Við hlustuðum á Lisu Ekdahl og drukkum kaffi og skoðuðum Ikea-vörulistann og drukkum kaffi og töluðum um gítara og dósahlátur og veggjaniðurbrot og Odd Nerdrum. Svo hjólaði ég heim. Baldursgata 30 var í sjónmáli þegar eitthvað gráloðið kom hlaupandi á móti mér og þá fáu metra sem það tók okkur að nálgast - mætast - fjarlægjast aftur reyndi ég að átta mig á fyrirbærinu, við þutum hvort á móti öðru í að því er virtist heila eilífð og í huganum glumdi í síbylju: hundur eða köttur? köttur eða hundur? eitthvað allt annað? og það að átta mig ekki á því hvort þetta væri grár og loðinn hundur eða grár og loðinn köttur (því annaðhvort var jú sennilegra en eitthvað allt annað) var óþægilegri tilfinning en ég hefði getað ímyndað mér; er, þegar öllu er á botninn hvolft og heimurinn súper-einfaldaður, hægt að hugsa sér sterkari andstæður en hund og kött? og hvert er eiginlega gildi þess sennilega? Skyndilega vissi ég ekkert með vissu og þessi óskilgreinda vera skelfdi mig; ég skildi ekki eðli hennar, hvaðan hún kom eða hvað hún vildi: nú veit ég hvernig mér liði ef ég mætti geimveru á Freyjugötunni.
Erla Elíasdóttir @ 10:00 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER