perjantaina, helmikuuta 18, 2005
Kaffibarinn og salatsjálfsalinn


Besti dagur ársins hingað til, utaná sem og innaní. Í morgun horfði ég á L'Auberge Espagnole og hún er frábær. En ekki reyna að finna hana á vídjóleigum borgarinnar, ekki heldur á Borgarbókasafninu eða í Alliance Française... ég leitaði bókstaflega allsstaðar og hún er bara til í Tungumálamiðstöð Háskólans.

Var að endurheimta tölvuhátalarana mína, það var mjög kærkomið sökum þeirrar tónlistar sem ég á aðeins á tölvutæku formi, til dæmis M, sem er einmitt líka franskur.

Þessi vika hefur aðallega einkennst af frönsku, ef frá er talin hin stórfenglega akademía er ökuskóli nefnist. Þar hef ég eytt samtals 14 klukkutímum vikunnar og er orðin nákunnug kaffisjálfsalanum í 10-11 Barónsstíg, að ekki sé minnst á salatbarinn.

Ég hef skráð mig í vísindaferð núna klukkan fimm, á ekki ómerkilegri stað en sendiráð BNA. Það er athyglisvert að bókmenntafræðinemar fari í vísindaferð þangað. Stofnanir sem taka hópa í vísindaferðir eru yfirleitt annaðhvort á einhvern hátt tengdar viðkomandi fagi eða stunda viðskipti af einhverju tagi (stúdentar, sem neytendur, gegna þá hlutverki markhóps). Sendiráðið fellur í hvorugan þessara flokka, en einhverja ástæðu hljóta þeir þó að hafa til að hleypa okkur inn í helgidóminn og borga oní okkur áfengið, að ekki sé minnst á vesen sem fylgir vopnaleit og slíku... eru væntanlega að reyna að selja okkur bætta ímynd. Þetta verður allavega áhugaverð tilraun.
Erla Elíasdóttir @ 4:01 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER