torstaina, tammikuuta 27, 2005
Vindmyllur huga míns


Fyrirbærið blogg er hluti rútínu míns daglega lífs. Ég blogga kannski ekki daglega, en það heyrir til undantekninga að ég skoði ekki blogg einhvers á hverjum degi.

Við erum alltaf að hugsa, meðvitað eða ómeðvitað, stórfenglega visku eða ómerkilega þvælu; kannski deilum við hugsuninni með einhverjum og kannski ekki. Kannski bloggum við hana.
Það er svo margt sem mig langar að segja sem gæti svosem átt sér vettvang hér á Blogger gamla, ef ég væri til dæmis bloggari að atvinnu. Tæki mér heilan dag í hverja færslu. En svo er ekki, þar sem ég tel mig hafa merkilegri hlutum að sinna...



Hverjir eru viðtakendur bloggskrifa? Það er erfitt að skrifa án þess að hafa í huga viðtakanda/endur af einhverju tagi. Slíkt háir manni eflaust minna í skáldsagnaskrifum og hreinlega öllum öðrum skrifum, því bloggskrif eru sér á báti; allur prósessinn er svo opinn og óvarinn og fyrir allra augum.

Bloggarar eru fólk, fólk er misjafnt, bloggarar eru misjafnir, það er ekki allra að bera tilfinningar sínar á torg, sem blogg óneitanlega býður uppá.

Það er endalaust hægt að blogga um tónlist eða bækur, hvað maður var að/er að/mun gera, hvað mann dreymdi eða hvað er að gerast í heiminum. Það er hægt að velta upp óteljandi spurningum án þess að vonast eftir svari.



Þessi síða er þriðja tilraun mín til bloggskrifa og ég hóf hana með þá stefnu að reyna að gleyma því að ég væri að blogga, bara skrifa það sem mig langaði og vera sem minnst meðvituð um hvert það færi.

Sem ég hef komist að raun um að er ekki hægt...

Svo hvað þá? Ég gæti tekið kommentakerfið út, það myndi gera málin mun óblogglegri. Eða ég gæti farið í hina áttina og gert þetta að bloggi um blogg, metafictional röfli um sjálft sig... það væri nú gaman! ha?



Ég hugsa í hringi.



...and the world is like an apple whirling silently in space

like the circles that you find in the windmills of your mind

Erla Elíasdóttir @ 5:40 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER