torstaina, tammikuuta 13, 2005
a bad hair night?

Minns dreymdi furðulega í nótt...



Ég var á leið heim, þ.e.a.s. að húsinu mínu og mömmufjölskyldunnar minnar, en samt átti pabbafjölskylda heima þar í draumnum. Ég gekk upp Freyjugötuna, nánar til tekið á gangstéttinni hægra megin. Samhliða mér hinumegin götunnar gekk maður. Hann er leikari og ég man ekki hvað hann heitir en hann lék held ég einn af dvergunum í Skilaboðaskjóðunni* hér um árið...

Hann er lágvaxinn og að ég held sköllóttur. Ég leit á hann yfir götuna og sá að hann var í rauninni með fullt af hári, en einhverskonar húðlitað sílikonpottlok líkti eftir skallabletti á afar sannfærandi hátt, hann kom upp um það þegar hann tók draslið af og klóraði sér í kollinum. Hann var í grænum flauelsbuxum og hagaði ser á allan hátt undarlega.

Svo kom ég að húsinu, íalvörunnimömmuhúsi en ídraumnumpabbahúsi, og þar inni var aðeins einn meðlimur pabbafjölskyldu, það er systir mín Brynhildur sem má til gamans geta að verður 6 ára gömul á morgun. Hún er yndisleg, hún er líka með svo fallegt hár. En í draumnum hafði einhver rakað það allt af. Sem var ekki alveg jafn fallegt.



Hvernig ber að ráða þetta kæru lesendur? Sköllótti maðurinn er hárprúður og hárprúða stúlkan sköllótt?

Tengist þetta mínum sköllótta kærasta? Agli Ólafs? Bruce Willis? Geng ég ef til vill með sköllótt barn?



Já minn kæri Mister Sandman, ráðning væri vel þegin.


*Barnabókin Skilaboðaskjóðan, sem síðar var sett á svið, er eftir rithöfundinn góðkunna Þorvald Þorsteinsson. Áður en við mömmufjölskyldumeðlimir fluttumst í núverandi húsakynni okkar bjó þar maður að nafni... hah, en sú tilviljun, Þorvaldur Þorsteinsson?
Erla Elíasdóttir @ 5:12 ip.  


Meðlæti:

- - -

Gestgjafar:

Free Blogger Templates

BLOGGER